29/04/2024

Meira af hvölum á Hólmavík

Nokkrir aðilar hafa sett sig í samband við Strandagaldur vegna fréttarinnar af hvalinum við fjöruborðið á Hólmavík í dag. Í ljós hefur komið að um hvalavöðu hefur verið að ræða en íbúar Hafnarbrautar 2 og gestir þeirra fylgdust með þeim allan seinnipartinn. Þau lýsa því að þrír til fjórir hvalir hafi verið saman í hóp og líklega verið að að elta og gæða sér á fiskseiðum. Þrír þeirra komu komu nánast upp í fjöru, voru um 15 – 20 metra frá í víkinni neðan við húsið. Einnig sáu þau annan hval, nokkuð stærri og nokkuð utar sem líklega hefur verið hnúfubakur af lýsingunni að dæma.

Hvalirnir tóku spretti rétt undir yfirborðinu þannig að boðin gengu á undan þeim og mátti þá sjá sílin þyrlast upp á undan þeim og þeir þvældust svo um fram og til baka.

Yfirleitt var fuglinn að tína upp á svipuðum slóðum og hvalurinn og blástur þeirra mátti heyra greinilega þar sem þeir voru þarna að leik. Þetta sjónarspil var að sjálfsögðu mjög skemmtilegt fyrir íbúa hússins og ekki síður fyrir gesti þeirra að fá tækifæri til hvalaskoðunar úr stofuglugganum heima.

Ingimundur Pálsson á Hólmavík var með myndavélina í súldinni á sunnudaginn og fylgdist með marhnútaveiðikeppni sem haldin var á Sjómannadaginn og rak augun í hval á mjög svipuðum slóðum og hvalirnir sem sáust í dag í gegnum linsuna frá höfninni og náði að festa hann á filmu.

 
Ljósm: Ingimundur Pálsson