Mannlíf og menning stendur í blóma á Ströndum og ótrúlegt framboð er á almennri gleði, viðburðum, námskeiðum og margvíslegum skemmtunum á svæðinu. Þetta gildir jafnt sumar, vetur, vor og haust. Þeir sem áhuga hafa á að eiga góða daga með vinum og kunningjum fá til þess margvísleg tækifæri. Félagslíf er öflugt og ef menn finna ekki áhugamál við hæfi í flórunni sem er fyrir hendi, búa Strandamenn vettvanginn til að eiga samskipti einfaldlega til sjálfir. Hér fylgja nokkrar myndir frá viðburðum helgarinnar og liðinnar viku.
Í dag var myndasýning á Galdraloftinu á Hólmavík, þar var sýndur afrakstur af ljósmyndanámskeiði barna sem haldið var milli jóla og nýárs. Það voru Brian Berg og Tinna Schram sem héldu námskeiðið og höfðu með Kristni Schram gert litla heimildamynd um námskeiðið sem innihélt fjölmargar af ljósmyndunum og var hún sýnd í dag. Góð aðsókn var að viðburðinum og um 15 börn tóku þátt í námskeiðinu.
Nóg tækifæri eru til að njóta útivistar. Skautar urðu vinsælir að nýju á Hólmavík síðasta vetur þegar Sigurður Atlason gerði skautasvell við Galdrasýninguna. Nú eru tjarnir og pollar ísi lagðir og óspart nýttir til skautaæfinga.
Skíðafélag Strandamanna er öflugur félagsskapur og heldur reglulega æfingar í skíðagöngu sem Strandamenn eru nokkuð snjallir í. Á skíðaæfingu í dag snjóaði duglega á köflum, en skíðagarpar létu það ekkert á sig fá.
Gönguklúbburinn Gunna fótalausa er opinn klúbbur sem á höfuðstöðvar á Facebook. Frá jafndægrum að hausti hefur verið haldin svokölluð skemmtiganga í skammdeginu þar sem gengið á nýjar slóðir í nágrenni Hólmavíkur í hádeginu einn virkan dag í viku hverri. Síðast skoðaði hópurinn undur Skothúsvíkur og eru meðfylgjandi myndir frá þeirri göngu. Framundan er gönguferð til Kóreu í næstu viku.
Ekki viðraði til flugeldasýningar á þrettándanum og því var flugeldasýning Björgunarsveitarinnar Dagrenningar haldin í gærkveldi. Fjöldi fólks safnaðist að venju saman við Hólmavíkurkirkju á Brennuhóli og horfði á björgunarsveitarmenn leika listir sínar á bryggjunni.
Í dag lauk viku löngu leiklistarnámskeiði með pompi og prakt í Félagsheimilinu á Hólmavík. Það er leikarinn Smári Gunnarsson frá Hólmavík sem hélt námskeiðið á vegum Leikfélags Hólmavíkur. Nærri 40 manns tóku þátt í námskeiðinu í þremur aldurshópum. Í dag hittust allir hóparnir og héldu saman leiklistargleði, fóru í leiki, sýndu örþætti og leikæfingar, spunaleikrit og hreyfileikhús.
Lauk leiklistargleðinni með spunakeppni í flokki fullorðinna þar sem áhorfendur fengu að sjá verslunarleiðangur í íþróttafréttastíl og Shakespearstíl og ferðalagsspuna í tilfinningastíl og slidesmyndastíl. Auk þess voru frumsýnd framlög Rússlands og Serbíu í Eurovision 2011. Leikgleðin sveif yfir vötnum.
Stjórn Leikfélags Hólmavíkur fundar nú í kvöld um áframhaldandi verkefni vetrarins, en námskeiðið og útvarpsleikrit í desember eru að baki. Bæði leikstarf og kórstarf hefur alltaf verið öflugt á Hólmavík og næg tækifæri til að vera með í slíku menningarstarfi.
Á föstudagskvöld stóð Þjóðfræðistofa fyrir kvöldvöku þar sem gestir í Skelinni, Þór Vigfússon og Hildur Hákonardóttir, spjölluðu við gesti um lífselexír, Guðmund biskup góða og draugasögur. Þá var sýnd stuttmynd um Selkollu og rætt um boðskap sögunnar fram og aftur.
– ljósm. Jón Jónsson og Sigfús Snævar Jónsson