27/04/2024

Loðna gengur á land í Ingólfsfirði

Sá fátíði atburður átti sér stað í Ingólfsfirði á Ströndum síðastliðinn sunnudag að loðnutorfa gekk þar nánast á land. Torfan kom inn á morgunflóðinu og synti upp í á. Þegar fjaraði út varð mikið af dauðri loðnu eftir í ánni og fjörunni, en einnig lónaði eitthvað af loðnu áfram í ánni. Sannkölluð veisla kría og máva var í gangi þegar komið var að. Heimamenn segjast ekki vita dæmi um annað eins undanfarna áratugi.

Fiskifræðingarnir Bjarni Jónsson og Eik Elfarsdóttir hjá Norðurlandsdeild Veiðimálastofnunar voru á ferð í Árneshreppi við ála og kola rannsóknir og skoðuðu loðnuna í Ingólfsfirði ásamt því að taka sýni. Bjarni segir það mjög óvenjulegt og sjaldgæft að loðna gangi með þessum hætti upp í ár en dæmi séu um slíkt hjá síld. Nýlega gekk einnig loðna í ferskvatn í Hvalfirði og mögulega hefur það gerst víðar að undanförnu. Um ástæður þess að þetta gerist nú segir Bjarni erfitt að segja, en loðnan í Ingólfsfirði hafi greinilega verið komin inn á fjörð og mjög grunnt og af einhverjum ástæðum tekið strikið upp í ána á flóðinu. Loðnan var væn og tiltölulega vel á sig komin.

bottom

frettamyndir/2006/580-lodna_ingolfsfj1.jpg

Ljósm. Bjarni Jónsson