22/12/2024

Líf og fjör í ferðaþjónustunni

Óvenju mikið var að gera í ferðaþjónustunni við Steingrímsfjörð um helgina, en nokkrir hópar voru á ferð um Strandir. Rúmlega fjörutíu manns í þremur hópum heimsóttu Sauðfjársetrið í Sævangi, skoðuðu sýninguna og fengu kaffihlaðborð, auk þess sem einn hópur fékk sérpantaða kennslustund um hrútaþukl. Sagnaleikhúsið á Galdraloftinu Álfar og tröll og ósköpin öll var á dagskrá fyrir tvo hópa á föstudagskvöld, en hópar sem eru á ferðinni geta pantað sýningar hjá Galdrasýningunni. Blíðskaparveður var á laugardag, haustlitir setja svip á landið, smalamenn voru að störfum meðan selir flatmöguðu á skerjum um allan fjörð og myndarlegur haförn lék þá listir sínar við Selströndina.