11/10/2024

Finnbogastaðaskóli heimsækir Grunnskólann á Hólmavík

Nemendur Finnbogastaðaskóla í Árneshreppi eru nú í skólaheimsókn hjá Grunnskólanum á Hólmavík. Í Finnbogastaðaskóla sem er einn fámennasti skóli landsins eru fjórir nemendur, Þórey Ingvarsdóttir í 1. bekk, Kári Ingvarsson í 4. bekk, Ásta Þorbjörg Ingólfsdóttir í 5. bekk og Júlíana Lind Guðlaugsdóttir í 8. bekk. Þau ætla að vera í skólanum á Hólmavík og kynnast nemendum þar alla þessa viku, auk þess að fara á vikulangt dansnámskeið Jóns Péturs í Félagsheimilinu á Hólmavík sem nú stendur yfir. Kennarar og starfsfólk er með í för.

Vegurinn norður í Árneshrepp var opnaður af þessu tilefni á sunnudag og kom hópurinn í kjölfar moksturstækjanna til Hólmavíkur. Á vef Strandabyggðar kemur fram að heimsóknin er frábært tækifæri fyrir nemendur bæði í Strandabyggð og Árneshreppi til að kynnast hvert öðru og ólíkum aðstæðum. Auk þess eru góð samskipti milli grunnskóla mikilvægur liður í  þróun skólastarfs.