25/11/2024

Landnám minksins í Árneshreppi

Minkur með bráð sínaSíðustu misseri hefur verið unnið að því að gera gömul dagblöð og tímarit aðgengilegri og þar er að sjálfsögðu aragrúi upplýsinga um mannlíf á Ströndum og sögu svæðisins. Margt skemmtilegt er þar innan um. Fréttaritari rakst á frásögn af fyrsta minknum sem sást í Árneshreppi, en hann var veiddur þar í ágúst 1958. Er hún birt hér að neðan til gamans, m.a. með hliðsjón af umræðu nú um hugsanlega útrýmingu minka á Íslandi. Greinin sem er eftir Regínu frá Gjögri birtist í Morgunblaðinu þann 12. ágúst 1958.

Fyrsta minknum banað í Árneshreppi á Ströndum

Fyrir nokkru fóru þær Ester Magnúsdóttir, Djúpavík, Ingibjörg Guðmundsdóttir, Reykjafirði og Herdís Árnadóttir sama stað, ríðandi norður í Trékyllisvík. Er konurnar voru komnar út að svokölluðu Vallnesi, sem tilheyrir Reykjafjarðarlandi, sáu þær dýr í fjörunni sem þær báru ekki kennsl á.

Fóru þær af baki og eltust við dýrið, sem reyndist vera minkur. Flúði minkurinn undir stein. Konurnar tóku þá það ráð, að tvær fóru heim í Reykjafjörð, að sækja Kjartan Guðmundsson bónda til að ráða niðurlögum hins skaðlega dýrs.

Komu Kjartan og konurnar eftir um það bil klukkustund og var Kjartan með byssu og hund með sér. Byrjaði þá orrustan og voru þau öll í vígahug. Konurnar tóku rekaviðarspýtur og hugðust lyfta steininum, sem minkurinn lá undir. Eftir nokkurn tíma skaust minkurinn undan steininum og skaut Kjartan hann samstundis. Þetta er í fyrsta skipti sem minkur sést hér í Árneshreppi.

Morgunblaðið 12. ágúst 1958.