21/11/2024

Lambakóngur í Trékyllisvík

Frá því er sagt á vefnum www.litlihjalli.is að ærin Blaðka á Bæ í Trékyllisvík bar á fimmtudaginn og átti hrút og gimbur. Blaðka sem er sjö vetra hefur komist í náin kynni við hrút í október, með þessum alkunnu afleiðingum. Sauðburður er þannig formlega hafinn í Árneshreppi. Bændur í Bæ eru Gunnar Dalkvist og Pálína Hjaltadóttir sem tók meðfylgjandi mynd og eru þau með um 660 kindur á fóðrum. Á myndinni eru heimasæturnar í Bæ, þær Aníta Mjöll og Magnea Fönn Gunnarsdættur, með lambakónginn.