22/12/2024

Lagasamkeppni á Hamingjudögum

Alls bárust níu lög í lagasamkeppni sem haldin er í tilefni af Hamingjudögum sem fram fara á Hólmavík 30. júní – 3. júlí. Dómnefnd hefur nú þegar tekið til starfa og er reiknað með að öllu óbreyttu að úrslit liggi fyrir og tilkynnt verði um sigurlagið í sameiginlegu grillpartýi sem fram fer á morgun að loknu hreinsunarátaki á Hólmavík. 


Að sögn Bjarna Ómars Haraldssonar framkvæmdastjóra Hamingjudaga sem einnig er formaður dómnefndar lagasamkeppninnar koma lögin víðsvegar af af landinu. Aðspurður vill hann ekkert gefa upp um lögin annað en að þau séu mjög fjölbreytt. Inn á milli má finna blús- og jassáhrif frá stríðsárunum, fjöldasöngslög og sveiflurokk í anda skagfirskra sveiflukónga. Ljóðin við lögin eru mjög fjölbreytt og taka mörg hver á helstu kostum Hólmavíkur frá ýmsum skemmtilegum og áhugaverðum sjónarhornum. Bjarni vill taka fram að það sé von dómnefndar að leyfi fáist hjá höfundum til að flytja lagið um leið og úrslit verða tilkynnt. Þetta er þó ekki víst þar sem um er að ræða svokallaðar demóupptökur af lögunum sem þýðir að þau á eftir að fullvinna.