22/12/2024

Kukl og kæti í Háskólabíói

Þátttakendur á málþingi um galdraGaldrasýning á Ströndum tók þátt í stórkostlegri dagskrá í Háskólabíói á Vetrarhátíð Reykjavíkur á laugardaginn. Sýnd var þögla sænska kvikmyndi Håxen frá 1922 við undirleik Sinfóníuhljómsveitar Íslands á tónlist eftir Barða Jóhannsson. Eftir kvikmyndatónleikana gerði Sigurður Atlason í hlutverki galdramannsins af Ströndum, tilraun til að fjölga mannkyninu með göldrum við mikla kátínu. Magnús Rafnsson flutti síðan fyrirlestur á Galdraþingi í Háskólabíó sem haldið var eftir sýninguna, ásamt öðrum kunnum fræðimönnum.

Ekki er vitað ennþá hvort galdur galdramannsins tókst þar sem meðgöngutími galdra er mjög óráðinn. „Mér tókst altént að gera stúlkuna ástfangna af mér og nú er bara að vona að hún rati norður," sagði galdramaðurinn og virtist vera mest hissa á því sjálfur hversu vel hefði til tekist. Galdrasýningin var með sýningu uppi í anddyri Háskólabíós alla helgina sem vakti mjög mikla eftirtekt og forvitni gesta. „Það voru margir sem höfðu það á orði að nú væri kominn tími til að fara norður á Strandir," sagði Sigurður.

Fjöldi manna mættu á uppákomuna en vel yfir 100 manns voru á málþinginu um galdra sem haldið var í einum sal bíósins eftir gjörninginn. Þar fjölluðu fjórir fræðimenn um ýmsar hliðar á göldrum sem menningarfyrirbæri. Magnús Rafnsson sagnfæðingur talaði um kukl á Íslandi fyrr á öldum og útskýrði mismun á galdramálum á Íslandi og Evrópu í stuttum og einkar skemmtilegum fyrirlestri.

Aðrir þátttakendur á pallborðinu voru Torfi H. Tulinius prófessor í frönsku og miðaldabókmenntum, Terry Gunnell dósent í þjóðfræði og Dagný Kristjánsdóttir prófessor í íslenskum bókmenntum.

Fjörugar umræður urðu á eftir og það var greinilegt á áhuganum að tíminn sem gefinn var fyrir málþingið var heldur stuttur.

Að sögn Magnúsar og Sigurðar þá hefur Strandagaldur átt samstarf við fjölmargar stofnanir undanfarin ár og tekið þátt í ótal menningarviðburðum. Þeir voru sammála um að þetta samstarf við Hugvísindastofnun Háskólans hefði verið einkar vel heppnað.

.

Þátttakendur á málþinginu um galdra. Frá vinstri, Torfi H. Tulinius, Terry Gunnell, Magnús Rafnsson og Dagný Kristjánsdóttir.

.

Galdrasýning á Ströndum var með litla sýningu uppi í Háskólabíói í tilefni af Vetrarhátíð Reykjavíkurborgar.