Kristín Árnadóttir var vígð djákni af biskupi Íslands sunnudaginn 25. febrúar ásamt þremur öðrum konum, einnig voru vígðir tveir prestar í sömu athöfn. Kristín er fyrsti djákni sem vitað er að starfi á Ströndum og við Húnaflóann, en starfssvæði hennar verður allt Húnavatnsprófastsdæmi með sérstakri áherslu á Hólmavík og Borðeyri. Starfshlutfallið er aðeins 20% til reynslu í eitt ár, sem er að vísu ekki mikið, en verður endurskoðað í ljósi fenginnar reynslu.
Kristín mun koma til aðstoðar með reglulegum heimsóknum til eldri borgara og fleiri á Hólmavík, efna til samvera og vera sóknarpresti sr. Sigríði Óladóttur til aðstoðar við afleysingar og fleira. Einnig er ætlunin að kanna möguleika á einhvers konar heimsóknarþjónustu til eldri borgara og fleira eftir því sem starfið leyfir.
Prófastur fagnar vígslu Kristínar mjög og telur þetta tímamót, ekki síst vegna þess að Kristín, sem hefur lengi starfað innan kirkjunnar, kemur til með að starfa við hliða prestanna, og ekki bara innan veggja tiltekinnar stofnunar, en það er sú leið sem oftast hefur verið farin með störf djákna hingað til. Hún verður sett inn í embætti af prófasti við æskulýðsmessu á Prestbakka sunnudaginn 11. mars nk. kl. 14.
Frá vígsluathöfninni – Ljósm. Einar Esrason