22/07/2024

Skiptar skoðanir um úthlutun byggðakvóta

Síðastliðinn föstudag var úthlutun byggðakvóta ákveðin hjá hreppsnefnd
Strandabyggðar. Það eru skiptar skoðanir á úthlutuninni hjá útgerðarmönnum eins
og sjá mátti utan við skrifstofu Strandabyggðar eftir fundinn á föstudaginn. Þá
hafði fáni sveitarfélagsins verið dreginn í hálfa stöng. Magnús Gústafsson
útgerðarmaður og sjómaður á Hólmavík segir að ef skoðað er úthlutun frá öðrum
byggðarlögum þá sjáist að gætt hafi verið jafnræði í flestum öðrum byggðarlögum
milli útgerða við úthlutun byggðakvóta. "Hér á Hólmavík hafa skiptin verið jöfn
á milli útgerða undanfarin ár eða allt þar til núverandi hreppsnefnd tók við,"
segir Magnús og bætir við að farið sé að gæta ójafnræðis við úthlutun
byggðakvóta á milli útgerða í Strandabyggð vegna ákvarðana hreppsnefndarinnar.

"Við síðustu úthlutun eða fyrir ári, þá sendi ég fyrirspurn til
hreppsnefndarmanna og svaraði einn fyrirspurn minni. Mér var þá tjáð að
úthlutunin hafi verið miðuð við hagsmuni byggðarlagsins í heild. Ekki veit ég
hvernig sú niðurstaða fékkst og sendi því bréf um betri útskýringar á
ákvörðuninni en  fékk ég aldrei nein svör. Ég spurðist einnig fyrir um hvernig
mismunun á launum manna væri hagkvæmari fyrir byggðarlagið, þar sem sumir fengu
með þessari úthlutun mun meiri tekjur í sinn vasa en aðrir. Það hefur einnig
orðið fátt um svör við þeirri fyrirspurn," segir Magnús Gústafsson og spyr hvort
verið sé að mismuna mönnum og útgerðum.

Á  fundi hreppsnefndar síðasta föstudag var úthlutun byggðakvóta vegna Strandabyggðar
ákveðin sem hér segir:

Bátur              þorskígildi
Guðmundur
Jónsson
26.388
Hafbjörg 16.754
Hallvarður 13.635
Hilmir 17.656
Hlökk 34.730
Kópnes 16.942
Straumur 13.895


Ljósmyndir: Magnús Gústafsson