22/11/2024

Kór Menntaskólans við Hamrahlíð heimsækir Strandir

Á www.reykholar.is er sagt frá því að kór Menntaskólans við Hamrahlíð undir stjórn stofnandans Þorgerðar
Ingólfsdóttur, einn af kunnustu og virtustu kórum landsins,verður í tónleikaferð um Vesturland og Strandir um næstu helgi. Kórinn syngur við
messu í Reykhólakirkju kl. 14 á sunnudag og síðan verða almennir tónleikar í
Hólmavíkurkirkju á sunnudagskvöld kl. 20. Líka verða sérstakir
skólatónleikar bæði á Hólmavík og í Búðardal á mánudag. Aðgangur er
ókeypis á alla tónleikana. Þetta er í fyrsta sinn sem kórinn heimsækir
Búðardal, Reykhóla og Hólmavík.

Á efnisskránni eru íslensk og erlend tónverk, m. a. eftir Bach,
Händel, Bartók, Jón Þórarinsson, Jón Ásgeirsson, Atla Heimi Sveinsson og
Þorkel Sigurbjörnsson, auk þjóðlaga frá ýmsum löndum. Efnisskráin er
svo fjölbreytt að kórinn flytur ólík verk eftir því hvort um er að ræða
almenna tónleika eða skólatónleika. Hljóðfæraleikarar eru meðal
kórfélaga.