19/09/2024

Kleinupartý á Sauðfjársetrinu á laugardag

Sauðfjársetrið verður með sérstaka karókí-opnun milli kl. 15:00 og 17:00 á morgun, laugardag. Þá verður Sævangur opnaður upp á gátt og boðið upp á kaffi, mjólk, djús, vatn og síðast en alls ekki síst verða ljúffengar kleinur á boðstólum. Kleinurnar voru steiktar nú fyrr í dag af Ásdísi Jónsdóttur, en hún á óopinbert Norðurlandamet í kleinubakstri með hefðbundinni aðferð. Aðgangur að kleinuhlaðborðinu og sýningunni Sauðfé í sögu þjóðar verður á sérstöku tilboðsverði, aðeins kr. 500.- fyrir 12 ára og eldri. Sævangur verður því kjörinn vettvangur á morgun fyrir þá sem vilja hittast og spá og spekúlera í söngkeppni kvöldsins, njóta góðra veitinga og kynnast menningararfinum í sauðfjárrækt.