22/12/2024

Kaffihlaðborð í Sævangi og Djúpavík

Sauðfjársetur á Ströndum í Sævangi verður með kaffihlaðborð í tilefni af sjómannadeginum á morgun kl. 14:00-18:00 og eins verður þar á boðstólum þjóðhátíðarkaffi þann 17. júní á sama tíma. Ekki er við öðru að búast en að borðin svigni undan tertum og kaffibrauði á þessu fyrsta hlaðborði sumarsins. Einnig er gamaldags kaffihlaðborð á Hótel Djúpavík á sjómannadaginn.

Af öðrum uppákomum sem Sauðfjársetrið stendur fyrir í sumar og þegar hafa verið skipulagðar má nefna gönguferð á degi hinna viltu blóma þann 18. júní frá Upplýsingamiðstöðinni á Hólmavík, Spurningakeppni í félagsheimilinu á Hólmavík fimmtudaginn 29. júní í tengslum við Hamingjudaga, Furðuleika á Ströndum í Sævangi þann 2. júlí og Meistaramótið í Hrútadómum sem verður þann 27. ágúst þetta árið.