22/12/2024

Kaffihlaðborð á Laugarhóli 17. júní og tónleikar á laugardag

Fréttatilkynning
Á morgun, Þjóðhátíðardaginn 17. júní, verður hið margrómaða kaffihlaðborð á Hótel Laugarhóli endurvakið. Veislan hefst kl. 15:00 og stendur langt frameftir degi. Sólin skín, sundlaugin er tandurhrein og því alveg tilvalið að skella sér í sund og gæða sér á gómsætum veitingum á eftir. Næstkomandi laugardag, þann 19. júní, halda þau Andrea Gylfa og Eddi Lár svo yndislega síðdegistónleika á Hótel Laugarhóli og hefjast þeir kl. 17:00. Söngdrottninguna Andreu Gylfadóttur er víst óþarft að kynna, en þau Eddi Lár, gítarsnillingurinn góði, og Andrea, hafa sungið og leikið saman um árabil við miklar og verðskuldaðar vinsældir.

Á tónleikunum fáum við að heyra íslenskar og erlendar söngperlur í þeirra undurfagra flutningi. Miðaverð er aðeins 1500 kr og því rakið að fá sér kaffi og meðí á undan og/eða kvöldverð í notalegum matsalnum eftir tónleikana, Sundlaugin er að sjálfsögðu opin og boltinn í beinni á barnum í dagstofunni.

Minnum einnig á myndlistarsýningu Árna Páls Jóhannssonar "STORMUR Á SUÐURLANDI" í hinu nýopnaða Gallerí Klúku. Allir eru hjartanlega velkomnir á viðburðina.