12/09/2024

Teiknimyndabók um galdra

Marc Védrines heitir franskur teikni-myndasöguhöfundur en hann hefur verið á Ströndum undanfarna daga að sækja hugmyndir í nýja teiknimyndasögu sem kemur út á næsta ári, en teiknimyndablöð eru mjög vinsæl í Frakklandi og eiga þar rótgróna hefð. Að sögn Marc þá kom hann á Galdrasýninguna á Hólmavík fyrir tveimur árum og heillaðist svo af sýningunni og umfjöllunarefninu þar, að hann ákvað að galdrar á Íslandi skyldi verða þema næstu sögu sem hann skrifar. „Þessi hugmynd er búin að vera að gerjast í kollinum á mér síðan", segir Marc „og nú er ég búinn að fá útgefanda í Frakklandi sem er stærsta forlag í landinu á þessu sviði og heitir Dargaud og gefur m.a. út sögurnar af Ástríki og Steinríki".  Þetta verður þriggja bóka sería og fjallar um galdramann af Ströndum og hans aðferðir og ævintýri, en sagan heitir einfaldlega Islandia og byggir að hluta á atburðum sem áttu sér stað.

Marc segist afar ánægður að hafa komið á Strandir en hann segist hafa orðið að koma þegar hann frétti af því að galdrasýningin Kotbýli kuklarans í Bjarnarfirði væri tibúin. Hann segir það mjög hjálplegt að sjá hvernig venjulegt fólk bjó á þessum tíma og segist vona að honum takist að láta það enduróma í verkinu.

„Þegar ég lagði fram þessa hugmynd fyrir útgefandann þá var hann snöggur að grípa hugmyndina og samþykkti hana samstundis. Menn eru nefnilega alltaf að leita að nýjum efnistökum en mörg hundruð nýrra teiknimyndabóka koma árlega út í Frakklandi", en Marc Védrines segist vona að þeim takist að finna útgefanda á íslenskri útgáfu seríunnar.

Skemmst er að minnast bókarinnar Strandanornir eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur sem kom út fyrir tveimur árum, en kveikjan að þeirri bók var á sama veg og hugmyndin að frönsku teiknimyndaseríunni, eftir heimsókn á Galdrasýningu á Ströndum. Sú bók hefur haft mikið gildi fyrir kynningu á verkefninu en mikill fjöldi ferðamanna hefur lagt leið sína á Strandir til að berja söguslóðir Strandanorna augum. Það er því eins líklegt að fransmenn taki sig til og heimsæki söguslóðir teiknimyndaseríunnar Islandia.