24/06/2024

„Julefrokost“ í Årslev

Grunnskóli í ÅrslevTíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is í Danmörku var svo ljónheppinn að lenda í "julefrokost" hjá Bøgehøjskole þegar hann leit þar við í gær. Bøgehøjskóli er einn stærsti grunnskólinn í vinabæ Hólmavikur í Årslev, Danmörku.

Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is átti leið um skólann rétt í þann mund þegar julefrokosten var að hefjast, en fyrir þá sem ekki vita þá er aldalöng hefð fyrir þessháttar samkomu fyrir jólin á öllum vinnustöðum í Danmörku.

Þarna voru samankomnir allir kennarar og starfsfólk skólans ásamt bæjarstjóranum og gerðu sér glaðan dag. Veisluborðið svignaði af hefðbundnum dönskum julefrokostkræsingum sem stendur m.a. af rúgbrauði hverskonar, pylsumat, svínasteik, svínakambi, nautakjöti, kæfu, beikoni, frikadeller sem eru litlar og sætar kjötbollur, svínasultu sem er ekki ósvipað sviðasultunni heima og bílförmum af rauðkáli. Þessum kræsingum er svo skolað niður með ósköpum öllum af bjóri og snaps.

Starfsfólki Bøgehøjskole hafði borist það til eyrna að á Íslandi skreyttu menn ótæpilega með ljósum í kringum jólin, en það er siður sem er almennt ekki til staðar í Danmörku. Fréttaritari varð að verja það með einhverjum ráðum og benti á það í löngum fyrirlestri að þarna væri einungis um örlítinn skammdegismenningarmun að ræða. Á Íslandi nýttu menn ódýrt rafmagnið til að lýsa upp skammdegið og hleypa birtu inn að hjörtum sínum fyrir jólin meðan frændur okkar í Danmörku nýttu til þess ódýran bjórinn og tendruðu þannig á litlum ljóstýrum í huganum sem svo lýstu þeim í gegnum jólin. Svo skáluðu allir fyrir því og kveiktu ljós um stundarsakir til að heiðra gestinn.

Skömmu síðar þá vitraðist það gestinum að hann hefði ekki ofmælt um þá dönsku né um birtugjafana þeirra, ölið og snapsinn, þegar viðstaddir þrifu upp söngbækur og sungu hástöfum hefðbundinn julefrokostsöng, hver með sínu nefi:

Snapsen var så stærk, skat
og øllet var så koldt.
Tror du jeg skal dø, skat
monstro at jeg er solgt.
Hvor mon jeg var henne, skat?
Min hjerne er blæst tom.
Jeg husker kun de snapse, skat,
og flasken der blev tom.

Í Bøgehøjskole ræður ríkjum Gunvor Knudsen sem tók einmitt þátt í vinabæjamótinu á Hólmavík í sumar sem einn fulltrúi Årslev. Henni fannst mikið til heimsóknarinnar koma og á góðar endurminningar þaðan og skilar góðri kveðju til allra Hólmvíkinga sem hún kynntist og sérstaklega til Sigrúnar Maríu Kolbeinsdóttur og fjölskyldu hennar sem hún hún gisti hjá þann tíma sem hún eyddi á Ströndum.

Kennarar og starfslid Bøgehøjskole

Bøgehøjskole í Årslev