09/01/2025

Íþróttamaður ársins í Strandabyggð

645-imadur1
Á íþróttahátíð Grunnskólans á Hólmavík í gær voru afhent verðlaun til íþróttamanns ársins í Strandabyggð. Það var Ingibjörg Emilsdóttir aðstoðarskólastjóri Grunnskólans sem fékk verðlaunin að þessu sinni, en sérstök hvatningarverðlaun fékk Jamison Ólafur Johnsson. Samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar Strandabyggðar frá síðasta ári skal velja íþróttamann ársins í Strandabyggð í janúar ár hvert. Val hans er í höndum Tómstunda-, íþrótta og menningarnefndar og ákveðnar reglur gilda um valið, m.a. að hann skuli hafa náð 14 ára aldri og vera búsettur í Strandabyggð. Hvatningarverðlaun skal veita einstakling 12 ára eða eldri.

Afhending skal fara fram með viðhöfn og var því vel við hæfi að veita viðurkenningarnar á Íþróttahátíð grunnskólans þar sem unga fólkið skemmtir sér í faðmi fjölskyldunnar við íþróttir og leiki. Það er íþróttafélag lögreglumanna á Hólmavík sem gefur farandbikar sem íþróttamaður ársins í Strandabyggð varðveitir.

Íþróttamaður ársins að þessu sinni er Ingibjörg Emilsdóttir. Á viðurkenningarskjali sem fylgir valinu er tekið tillit til árangurs á árinu, auk þess sem litið er til reglusemi, ástundunar, prúðmennsku, framfara og þess að viðkomandi aðili sé góð fyrirmynd í hvívetna. Í umsögn nefndarinnar segir: „Inga er hrikalega dugleg, hvetjandi og frábær fyrirmynd. Hún er alltaf úti að hlaupa og er drífandi og skemmtileg og hefur smitað marga af hlaupabakteríunni. Inga hljóp 17 km í Hamingjudagahlaupinu og hljóp hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu sl. sumar eða 21 km.  Inga sér um hlaupahóp sem æfir í viku hverri og það væri forvitnilegt að vita hve marga kílómetra hún hefur hlaupið á árinu 2012.“

Hvatningarverðlaunin fékk Jamison Ólafur Johnsson, en á viðurkenningarskjali stendur að verðlaunin séu sérstök hvatning til frekari afreka og árangurs í framtíðinni og veitt einstaklingi sem sýnir ríkan áhuga á sinni íþróttagrein, er góður félagi og góð fyrirmynd.

Í umsögn nefndarinnar segir: „Ólafur er mjög efnilegur í mörgum íþróttagreinum. Mestum árangri hefur hann þó náð í frjálsum íþróttum. Hann æfir sig að mörgu leyti sjálfstætt og ekki annað hægt en að dást af frumkvæði hans og áhuga. Helstu kostir Ólafs er að hann æfir og keppir ekki aðeins í þeim íþróttum og greinum sem hann er góður í, heldur einnig í þeim greinum sem hann á í erfiðleikum með og lítur hann á það sem áskorun. Ólafur veit að málið snýst ekki mest um að sigra einhverja keppni heldur er það félagsskapurinn og keppnin við sjálfan sig sem málið snýst um. Hann hefur hlotið mörg verðlaun á árinu bæði í sundi og í frjálsum íþróttum og ber þar hæst að nefna Vesturlandsmót í frjálsum greinum þar sem hann fékk 3 gullverðlaun, 3 silfurverðlaun og 1 brons. Eins lenti hann í 3ja sæti í 600 metra hlaupi á Unglingalandsmóti UMFÍ á Selfossi.“

 645-imadur3 645-imadur2

Myndir frá afhendingu verðlaunanna – ljósm. Jón Jónsson