05/11/2024

Íslendingar á víkingaöld: Líf og aðstæður fólksins í Íslendingasögunum

Föstudaginn 18. september verður Dr. William R. Short gestur Vísindaports Háskólaseturs Vestfjarða. Þar mun hann fjalla um væntanlega bók sína, Icelanders in the Viking Age: The lives and Times of the Pople of the Sagas. Bókinni er ætlað að veita erlendum nútímalesendum lykil að sögunum, sem þeir þurfa á að halda til að njóta þeirra. Líkt og fyrr fer Vísindaportið fram í kaffisal Háskólaseturs Vestfjarða á Ísafirði, en er varpað til Þróunarsetursins á Hólmavík með aðstoð fjarfundabúnaðar. Fyrirlesturinn fer fram á ensku og hefst kl. 12:10, hann er opinn öllum áhugasömum.

Í kynningu segir:

"Íslendingasögurnar hafa mikið skemmtanagildi, enda eru þær fullar af ástarævintýrum, bardögum, ættardeilum, gríni og harmi. En hversvegna ná þær ekki til fleiri erlendra lesenda, þrátt fyrir að vera aðgengilegar í frábærum nýjum enskum þýðingum? Hvað kemur í veg fyrir að útlendingar lesi sögurnar sér til skemmtunar? Hluti vandans felst í því að nútíma lesendur eru ekki nægjanlega kunnugir lífi og aðstæðum fólksins sem sögurnar fjalla um. Af þeim sökum eru þær illskiljanlegar fyrir þessa lesendur – hegðun persónanna getur verið ruglingsleg og órökrétt. 

William R. Short hlaut doktorsgráðu frá Massachusetts Institute of Technology árið 1980. Hann varði nær þrjátíu árum við vinnu í iðnaði, þar sem hann stundaði rannsóknir sem tengjast, hljóði, hljómburði og heyrn. Á þessum árum komst Dr. Short í kynni við Íslendingasögurnar og varð samstundis hugfanginn af þeim. Síðustu ár hefur hann starfað við Higgings Armory Museum þar sem hann hefur fengist við rannsóknir sem tengjast vopnum og vopnaburði á víkingaöld.

Þessar rannsóknir byggjast m.a. á fjölmörgum dæmum úr Íslendingasögunum, en niðurstöðurnar birti Dr. Short á síðasta ári í bókinni Viking Weapons and Combat Techniques. Á meðan á þessari vinnu stóð áttaði hann sig á að fjölmargir nútíma lesendur fórust á mis við skemmtanagildi sagnanna. Við fyrirlestrahald og sýningar, í fjölmörgum háskólum og söfnum, kom greinilega í ljós að fólk var áhugasamt og heillað af sögunum, en það átti erfitt með að setjast niður og lesa þær sér til skemmtunar þar sem samfélagið og menningin sem þar er lýst var ókunnugt. Bókinni Icelanders in the Viking Age, sem kemur út hjá McFarland & Company í Bandaríkjunum á næsta ári, er ætlað að bregðast við þessu."