Í kvöld heldur Idol-Stjörnuleit áfram á Stöð tvö og nú er komið að fimm manna úrslitum. Hólmvíkingurinn Aðalheiður Ólafsdóttir heldur að sjálfsögðu áfram þátttöku sinni í þættinum, en í kvöld mun Heiða vera þriðji keppandi á sviðið í Vetrargarðinum í Smáralind. Lagið sem hún flytur heitir því einfalda nafni Love, eða Ást. Strandamenn á öllum aldri hafa færi á því að horfa á flutninginn og sötra mjöð (þeir sem vilja) í Bragganum á Hólmavík í kvöld kl. 20:30.
Þema kvöldsins er Big-band tónlist, en Stórsveit Reykjavíkur mun sjá um undirleik undir stjórn Samúels Samúelssonar, sem m.a. er í fönksveitinni Jagúar. Gestadómari í kvöld er hinn gamalreyndi Ragnar Bjarnason.
Nú eru aðeins fimm keppendur eftir í keppninni. Þeir munu koma fram í eftirfarandi röð:
Davíð Smári – Moondance
Ylfa Lind – Mack the knive
Heiða – Love
Hildur Vala – It's only a papermoon
Lísebet – Almost like being in love
Skipuleggjendur vilja minna Strandamenn á Idol-kvöldið sem hefst í Bragganum á Hólmavík kl. 20:30 í kvöld. Þar verður keppnin sýnd á stóru tjaldi og hljóðið fært til áhorfenda með fullkomnum hljómtækjum. Allir eru velkomnir, börn sem fullorðnir. Fólk er hvatt til að taka með sér snakk, nammi og gos ef það vill, en bjór verður seldur á staðnum.