23/12/2024

Íbúar Strandabyggðar tregir að skrá sig á skyndihjálparnámskeið

RósubúðÞað stefnir í frekar dræma þátttöku á námskeiðið í skyndihjálp sem Rauði Krossinn í Strandasýslu hefur auglýst undanfarið á Hólmavík. Að sögn Gunnars Jónssonar þá hafa einungis tveir nemendur skráð sig til þátttöku en það er talsvert minni áhugi en vonir stóðu til. "Við héldum námskeið fyrr á árinu bæði á Drangsnesi og á Borðeyri og þátttakan á þeim stöðum var talsvert mikið meiri en stefnir í hér á Hólmavík", sagði Gunnar Jónsson þegar strandir.saudfjarsetur.is sló á þráðinn til hans í kvöld. Að sögn Gunnars þá voru konur í meirihluta þátttakenda á báðum stöðunum. "Ég er nú að vonast eftir fleiri skráningum en námskeiðið hefst annað kvöld", bætti Gunnar við.

Gunnar vill hvetja sem flesta til að skrá sig, en á námskeiðinu verður farið yfir flest þau atriði sem öllum er hollt að kunna skil á ef slys eða óhöpp ber að höndum.

Námskeiðið verður haldið í húsi Björgunarsveitarinnar Dagrenning á Hólmavík, Rósubúð, og hefst eins og fyrr segir annað kvöld, þriðjudaginn 7. nóvember og stendur til 9. nóvember. Námskeiðið er 16 kennslustundir og allir fá útskriftarskírteini að námskeiði loknu og þeir sem eru í námi fá það metið til eininga. Skráning fer fram í síma 893-4622.

strandir.saudfjarsetur.is hvetur sem flesta til að skrá sig á námskeið Rauða krossins því slysin gera ekki boð á undan sér.