13/09/2024

Fylgi stjórnmálaflokkanna

Samkvæmt niðurstöðum úr þjóðarpúlsi Capacent sem birtar voru nýlega og útreikningum Ólafs Þ. Harðarsonar yrði mikil breyting á fylgi stjórnmálaflokka ef kosið yrði nú. Samkvæmt fréttum RÚV fengi Sjálfstæðisflokkurinn 29 þingmenn, Samfylkingin 16, Vinstri grænir 13 og Framsóknarflokkurinn 5. Frjálslyndi flokkurinn kæmi ekki manni að. Mikil endurnýjun yrði á þingliðinu samkvæmt þessu og auk þess hafa alls 17 þingmenn ákveðið að hætta í pólítík. Í Norðvesturkjördæmi er gert ráð fyrir að Sjálfstæðismenn fái 3 menn, en Samfylking, Vinstri grænir og Framsókn fá 2.

Aðeins er búið að raða forystumönnum á einn lista í Norðvesturkjördæmi, en prófkjöri Samfylkingar um fjögur efstu sætin er lokið. Guðbjartur Hannesson sigraði örugglega og verður nýliði á þingi samkvæmt þessu. Karl V. Matthíasson sem varð annar hefur setið á þingi áður, þó það hafi ekki verið á yfirstandandi kjörtímabili. Samfylkingin hefur samkvæmt þjóðarpúlsinum 25% fylgi í kjördæminu og fengi 2 menn kjörna.

Sjálfstæðismenn stilla upp sínum lista og verður líklega lokað fyrir framboð til uppstillinganefndar þann 11. nóvember. Í byrjun nóvember höfðu 16 einstaklingar þegar gefið kost á sér á listann, eftir að auglýst var eftir framboðum. Þar á meðal eru þeir þrír þingmenn sem nú sitja á þingi fyrir flokkinn, Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra og Einar Oddur Kristjánsson. Telja verður næsta öruggt að þeir skipi þrjú efstu sætin. Samkvæmt þjóðarpúlsinum hefur Sjálfstæðisflokkurinn 35% fylgi í Norðvesturkjördæmi og fengi 3 menn kjörna. Fylgi við flokkinn er minnst á landinu í kjördæminu, þótt hann sé eftir sem áður langstærsti flokkurinn þar.

Framsókn heldur prófkjör með póstkosningu sem nú er hafin meðal félagsmanna. Þar bjóða þingmennirnir tveir sig fram í leiðtogasætið, Kristinn H. Gunnarsson og Magnús Stefánsson. Engin könnun hefur verið gerð um hvor stendur betur að vígi, en þeir eru að mörgu leyti fulltrúar andstæðra sjónarmiða innan Framsóknarflokksins. Líklegt er að Herdís Sæmundardóttir varaþingmaður sem sækist ein eftir öðru sætinu lendi í því, en talið verður 17. nóvember. Framsókn hefur samkvæmt Þjóðarpúlsinum 16% fylgi í kjördæminu og  fengi 2 menn kjörna og er það mesta fylgi sem flokkurinn hefur á landinu.

Litlar fréttir eru af framboðsmálum Vinstri grænna, en kjördæmisþingi þeirra var frestað vegna veðurs nú um helgina, en verður líklega um næstu helgi. Þar verður ákveðið hvernig staðið verður að uppstillingu á lista. Talið er að Jón Bjarnason sækist áfram eftir leiðtogasætinu, en fái flokkurinn annan mann yrði um nýliða á þingi að ræða. Samkvæmt þjóðarpúlsinum hefur flokkurinn 18% fylgi í kjördæminu og fengi 2 menn kjörna.

Frjálslyndi flokkurinn hefur nú tvo þingmenn í Norðvesturkjördæmi, formann flokksins Guðjón Arnar Kristjánsson og Sigurjón Þórðarson. Samkvæmt þjóðarpúlsinum kæmust þeir ekki á þing, en fylgi Frjálslyndra er þó hvergi meira en í Norðvesturkjördæmi eða 6%.

Þingmönnum Norðvesturkjördæmis fækkar um einn við kosningarnar í vor, verða 9 í stað 10 nú.