12/12/2024

Íbúafundur í Hólmavíkurhreppi

Í kvöld var haldinn íbúafundur fyrir íbúa Hólmavíkurhrepps í félagsheimilinu á Hólmavík.  Á fundinum var m.a. rædd fjárhagsstaða hreppsins og fjárhagsáætlun ársins 2005 auk margra annarra mála. Sem dæmi um fjölbreytni umræðanna má nefna að rætt var um vegagerð og samgöngur, héraðsskjalasafn, málefni félagsheimilisins, atvinnumál, hafnarmál, ruslahaugana, Miðtúnið, skipulagsmál, sameiningu sveitarfélaga, íþróttamiðstöðina, rekstur hreppsins, bátinn Hilmi, framtíð hreppsins, upplýsingaflæði, slysagildrur í gangstéttum, holræsa- og frárennslismál, þátttöku í Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða og nokkur fleiri mál.

Um 50 manns mættu á fundinn auk hreppsnefndar og sveitarstjóra sem sátu fyrir svörum. Fundarstjóri var Kristján Sigurðsson. Fundurinn samþykkti samhljóða áskorun vegna vegar um Arnkötludal, sem Engilbert Ingvarsson frá Tyrðilmýri lagði fram.

strandir.saudfjarsetur.is munu síðar fjalla nánar um málefni sem tekin voru fyrir á fundinum.

Hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps og sveitarstjóri sátu fyrir svörum.

Engilbert Ingvarsson les upp áskorun um samgöngumál sem samþykkt var samhljóða á fundinum að senda til þingmanna og fleiri lykilaðila.

Rétt rúmlega fimmtíu manns sóttu fundinn.

 

Ljósm. – Arnar S. Jónsson.