12/12/2024

Íbúafundur framundan

Borist hafa af því fregnir að á fundi hreppsnefndar Hólmavíkurhrepps í gær hafi verið ákveðið að halda almennan íbúafund í hreppnum þriðjudaginn 8. mars næstkomandi. Síðast var haldinn íbúafundur í Hólmavíkurhreppi 20. janúar 2003 og tókst hann með miklum ágætum, margt fróðlegt kom þar fram, fjölmenni var viðstatt og margir tóku til máls. Meðal hitamála þá var bygging sundlaugar og íþróttamiðstöðvar sem nú er lokið og kostnaður við þær framkvæmdir og reksturinn.


Ekki hefur enn verið upplýst hvort fundurinn verður með sama sniði og fyrri fundur, en á spjalltorgi strandir.saudfjarsetur.is hafa síðustu vikur verið viðraðar ýmsar hugmyndir um hvað taka mætti fyrir á slíkum fundi. Upp á síðkastið hefur einnig víða verið efnt til jákvæðrar hugmyndavinnu með virkri þátttöku íbúa um það sem betur má fara í ýmsum málaflokkum, í tengslum við íbúafundi eða íbúaþing sveitarfélaga.