11/10/2024

Hver verður Strandamaður ársins 2010

Hver verður Strandamaður ársins 2010?Að venju taka Strandamenn sér allan janúarmánuð til að velja Strandamann ársins sem nýliðið er, enda er sjálfsagt að taka góða stund í að velta vöngum yfir því sem vel er gert í samfélaginu. Eftir spennandi og skemmtilega undankeppni þar sem lesendur vefjarins strandir.saudfjarsetur.is tilnefndu fjölmarga Strandamenn ársins 2010, er nú komið að seinni umferð kosningarinnar. Þá er valið á milli þeirra þriggja sem fengu flestar tilnefningar, en stundum eru þrír reyndar fjórir. Svo er nú, því tveir einstaklingar fengu jafn margar tilnefningar. Valið stendur því á milli fjögurra Strandamanna sem eru eftirtaldir í stafrófsröð: Arinbjörn Bernharðsson, Ingibjörg Valgeirsdóttir, Ingvar Þór Pétursson og Jón Hallfreður Halldórsson.

Arinbjörn Bernharðsson
Arinbjörn Bernharðsson frá Norðurfirði hefur verið áberandi við uppbyggingu ferðaþjónustu í Árneshreppi á árinu 2010. Hann reisti í sumar tvö sumarhús í Norðurfirði á vegum Urðartinds ehf. "sem slegið hafa í gegn" og hyggur á frekari uppbyggingu í ferðaþjónustustu. Þá hefur hann unnið að atvinnuuppbyggingu við útgerð á Drangsnesi. Arinbjörn er í umsögnum sagður "efnilegasti ferðaþjónustubóndi ársins", "snillingur" sem "sýnir í verki hvar hjarta hans slær" og hefur "fjárfest manna mest á Ströndum". Hann er sagður "flottur karl" og "feikna öflugur trésmiður" sem "vandar vel til verka" og hefur "lagt mikið á sig til að auka ferðamannastraum á Strandir".

Ingibjörg Valgeirsdóttir
Ingibjörg Valgeirsdóttir tók við starfi sveitarstjóra í Strandabyggð í sumar, en hún er fædd og uppalin í Árnesi í Trékyllisvík. Ingibjörg er í umsögnum sögð dugnaðarforkur, "ung, vel menntuð og framtakssöm kona sem lætur sér annt um hag sinnar heimabyggðar". Telja þeir sem tilnefna Ingibjörgu að hún sé "sú manneskja sem getur komið okkur á Íslandskortið með sínum drífandi og óþrjótandi áhuga á mönnum og málefnum". Ingibjörg er einnig sögð "jákvæð og frábær kona", að hún veiti "birtu og yl inn í samfélagið á Ströndum" og að hún sé "heiðarleg, skynsöm og samviskusöm", "dugleg og hjálpsöm" og "mikill húmoristi".

Ingvar Þór Pétursson
Ingvar á og rekur útgerðarfyrirtækið Hlökk ehf. á Hólmavík af "dugnaði og útsjónarsemi" með konu sinni Bryndísi Sigurðardóttir. Hlökk hefur skapað mikla atvinnu í gegnum árin, og árið 2010 var keypt húsnæði undir útgerðina. Hlökk hefur jafnan fiskað afbragðs vel og nú er verið að bæta nýjum bát við reksturinn. Þannig fjölgar störfum á Ströndum sem er ekki sjálfgefið á krepputímum. Ingvar "hugsar um hag byggðalagsins", og "hefur trú á svæðinu", segir í umsögnum. Hann er "vinnusamur og duglegur" og "stýrir fyrirtækinu af miklum sóma". Einnig kemur fram að starfsemi hans "skapi mikla atvinnu" og að starfsemi Hlakkar sé "til fyrirmyndar og hreint og vel um gengið hjá þeim".

Jón Hallfreður Halldórsson
Jón Halldórsson sem oft er kenndur við Hrófberg starfar sem landpóstur á Hólmavík. Hann er tilnefndur fyrir öfluga þátttöku í tónlistarlífinu á staðnum og fyrir "frábæra vefsíðu sem margir skoða". Dugnaður hans við að "færa burtfluttum Strandamönnum fréttir og frábærar myndir af Ströndum" er lofaður og ljósmyndir og vídeómyndir Jóns sem birtast á vefnum holmavik.123.is fá mikið hrós frá þeim sem tilnefna hann. Myndir Jóns "jafnt af landslagi og atburðum" eru sagðar "til ómældrar ánægju fyrir Strandamenn heima og að heiman". Vefsíðan er vinsæl og í umsögnum kemur fram að "svona aðsókn á netinu sé alls ekki öllum fært að kalla fram".