28/04/2024

Hvannarlambakjöt bragðast vel

Einari K. Guðfinnssyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Ingu Lind Karlsdóttur stjórnanda "Ísland í dag" var boðið í mat í gær af Matís til að bragða á nýstárlegu lambakjöti, þ.e. af lömbum sem beitt var á hvönn í sumar. Meistarakokkar á veitingahúsinu Vox matreiddu innanlæri af hvannarlambi og einnig lambi sem gekk í hefðbundnu beitarlandi og báru gestirnir það saman. Kjötið bragðaðist mjög vel og var greinilegur munur á. Frá þessu er sagt á vef Landbúnaðarráðuneytis.

Verkefnið er að frumkvæði Höllu Steinólfsdóttur og Guðmundar Gíslasonar sauðfjárbænda að Ytri-Fagradal á Skarðsströnd. Þau hafa alið ákveðinn fjölda lamba í beitarhólfi með hvönn og til samanburðar eru lömb í úthagabeit og á ræktuðu landi. Markmiðið er að rækta hvannarakur til að beita lömbunum á og framleiða lambakjöti sem byggir á þessari aðferð.

Matís (Matvælarannsóknir Íslands) hefur svo unnið að rannsókn á áhrifum hvannarbeitar á bragðgæði lambakjöts og samkvæmt mati sérþjálfaðs hóps reyndust hvannalömbin hafa meiri kryddlykt og bragð, en lömb í hefðbundnu beitarlandi höfðu meira lambakjötsbragð.

Lýsti ráðherra ánægju sinni með slíka nýsköpun í landbúnaði. Það verði spennandi að fylgjast með framganginum og þetta sé lýsandi fyrir þá miklu möguleika sem séu fyrir hendi í framleiðslu landbúnaðarvara.