22/12/2024

Hólmavíkurskóli hlaut fyrstu verðlaun

Kl. 11:00
Nemendur Grunnskólans á Hólmavík hlutu fyrstu verðlaun í samkeppni um besta sjávarútvegsvefinn. Það var tilkynnt fyrir nokkrum mínútum á sjávarútvegssýningunni en keppnin er samstarfsverkefni sjávarútvegs- og menntamálaráðuneyta. Nemendum Hólmavíkurskóla voru afhent glæsileg verðlaun fyrir sitt frábæra framlag, rækjuvefinn. Verðlaunin sem voru í boði Landsbankans og féllu í skaut Hólmavíkurskóla voru, skjávarpi, upptökuvél og fartölva. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra afhenti nemendum og kennurum grunnskólans verðlaunin í morgun og flutti við það tilefni eftirfarandi umsögn dómnefndar keppninnar:

Einkar áhugaverður vefur um vel afmarkað og útfært efni. Framsetning er skýr og vefurinn léttur og aðgengilegur. Efnistökin eru afar metnaðarfull og hugmyndavinna að baki vefnum mikil. Upplýsinga- og fræðslugildi vefsins er ótvírætt. Vefurinn er markviss, frumlegur og skemmtilegur. Frágangur og greinargerð um vinnubrögð eru til fyrirmyndar. Eigin hugmyndir nemenda eru athyglisverðar og með verkefnavinnunni hafa nemendur verið vaktir til umhugsunar um atvinnugreininina. Þróunarmöguleikar vefsins eru mikilsverðir og auðvelt að yfirfæra verkefni að öðrum þáttum í skólastarfinu. Vel hefur tekist til við að tengja viðfangsefnið samfélaginu í heimabyggð auk þess sem verkefnið er lýsandi dæmi um góða samvinnu nemenda á misjöfnum aldri, kennara og samfélags. Dómnefnd telur að verkefnið falli sérstaklega vel að þeim markmiðum sem ráðuneytin settu með keppninni.

Reykjavík 10. september 2005

Með bestu framtíðaróskum,
Árni M. Mathiesen
Þogerður Katrín Gunnarsdóttir

Markmið keppninnar var að gefa nemendum tækifæri til að tjá sínar hugmyndir um sjávarútveg og auka meðvitund þeirra og athygli á greininni. Framlag Grunnskólans á Hólmavík til keppninnar sem bar yfirskriftina "Sjávarútvegur í fortíð, nútíð og framtíð", er hægt að skoða með því að smella hér.