11/10/2024

Enn eitt jafnteflið!!

Stjórnandi tippleiks strandir.saudfjarsetur.is hefur illan grun um að Íslenskar getraunir, slatti af enskum knattspyrnuliðum og síðast en ekki síst þeir Þröstur Áskelsson á Hólmavík og Jón Jónsson á Kirkjubóli hafi sameinast um að ganga frá tippleiknum dauðum rétt eftir fæðingu. Þessar grunsemdir vöknuðu í dag þegar kapparnir gerðu þriðja jafntefli sitt í röð en þeir náðu fjórum stigum hvor, sem er lakasta frammistaða þeirra til þessa.


Þröstur átti þó sigurinn vísann þegar leikjunum var um það bil að ljúka. Hann missti hins vegar stigið sem hann hafði í forskot þegar Wigan skoraði sigurmark gegn WBA löngu eftir að venjulegum leiktíma lauk. Niðurstaðan varð því jafntefli; 4-4, og kapparnir hljóta nú að íhuga að taka mikla sénsa í næstu viðureign.
Hægt er að sjá spár og umsagnir kappanna með því að smella hér.