28/04/2024

Hólasaga

Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is fékk nýlega senda frásögn sem ber yfirskriftina Hólasaga og er eftir Hildi Guðbrandsdóttur. Hér er um að ræða erindi sem flutt var á niðjamóti Magnúsar Steingrímssonar og Kristínar Árnadóttur á Hólum í Staðardal. Niðjamótið var haldið árið 2000 að Klúku í Bjarnarfirði og var frásögnin leiktúlkuð með sviðsmynd, búningum og öllu tilheyrandi, af systrum Hildar um leið og hún var lesin. Víða var farið á mótinu, tóftir „ættaróðalsins“ skoðaðar og einnig var farið í Staðarkirkju, þar sem hún Sigríður Björnsdóttir söng fyrir mannskapinn og fór létt með það þó komin væri nokkuð á efri ár. Vefurinn þiggur frásagnir sem þessa með þökkum, ef aðrir hafa eitthvað sambærilegt í fórum sínum sem þeir geta hugsað sér að komi fyrir almenningssjónir hér á vefnum.

Hólasaga – skráð 31. mars 2000

Föðurætt okkar hefur verið í Steingrímsfirði í hundruð ára og ætla ég að byrja á móðurætt pabba og fyrstan að telja  sr. Hjalta Jónsson 1766-1827. Hann var prestur og prófastur á Stað í Steingrímsfirði hafði tekið við því prestakalli af föður sínum sr. Jóni Sveinssyni.

Hjalta er lýst þannig í æviskrám: “Hann var merkismaður og valmenni, kennimaður ágætur, frábær mælskumaður og predikaði jafnan blaðalaust, örlátur um efni fram, smiður góður og skáldmæltur”. Kona hans var Sigríður Guðbrandsdóttir frá Brjánslæk. Þeirra sonur Guðbrandur Hjaltason 1808-1871. Bóndi, smiður og hreppstjóri í Kálfanesi, hans kona Petrína Eyjólfsdóttir. Þeirra dóttir Hildur Guðbrandsdóttir 1841-1880, hennar seinni maður var Árni Jónsson bóndi í Hafnarhólmi. Þeirra dóttir var Kristín Árnadóttir, móðir pabba, amma okkar. Einnig var dóttir þeirra Guðrún Árnadóttir, móðir Jörundar á Hellu.

Föðurætt pabba er hægt að rekja alveg aftur til fyrsta kynþáttar sem var Góa Þorradóttir, kóngs í álfheimum, er var numin af Rólfi í Bergi, jötuns norðan af Dofrum.

Áður en afi okkar Magnús Steingrímsson byrjaði sinn búskap að Hólum þá bjó þar faðir hans, Steingrímur Hjaltason. Hólar voru þá hjáleiga frá prestsetrinu Stað og þurfti að standa skil á afgjaldi fyrir jörðina til prestsins. Eitt sinn er hann kemur til að standa skil á afgjaldinu, sem var allnokkuð, ull og smjör, þá var prestur ekki kominn á fætur þó komið væri fram á dag. Kallar hann út til Steingríms að láta þetta bara inn í skemmuna og þá varð Steingrími að orði: „Sér er nú hver andskotans auminginn að hundskast ekki á lappir og hirða afgjaldið, hann á ekki skilið að fá neitt.“

Afi okkar Magnús Steingrímsson, hreppstjóri frá 1919 í Hrófbergshreppi, f. 1875, og amma okkar Kristín Árnadóttir, f. 1879, keyptu svo Hóla af Staðarkirkju og byrjuðu sinn búskap um aldamótin 1900. Bjuggu þar fyrst í 4 ár en fluttu sig þá að Ósi því heimilisfaðirinn þar dó frá ungri konu og börnum. Komu þá afi og amma til hjálpar og fluttu sig til þeirra svo ekki þyrfti að leysa heimilið upp. Þegar mestu erfiðleikunum lauk á Ósi og Ingimundur sonur þeirra var kvæntur elstu dótturinni þar á bæ og tekinn við búinu, þá fluttu þau sig aftur í Hóla og bjuggu þar þangað til afi lést árið 1953. Amma dó í Reykjavík 1964.

Afa get ég lýst þannig að hann var fámáll, hamhleypa til verka, nokkuð uppstökkur og skapmikill, meðalmaður á hæð og grannvaxinn. Hafði fallegt hár og mikið og fallegt yfirvararskegg, bláeygður og ekki laust við að þessi fallegu bláu augu komi fram í hans afkomendum allmörgum.

Amma var frekar lágvaxin og feitlagin, með nærri svart hár sem hún hafði ævinlega í tveim fléttum, bláeygð og afar skapgóð og barngóð kona. Þrifin með eindæmum.

Þau eignuðust 6 börn. Ingimund Tryggva f. 1901, Steingrím f. 1903, Guðbrand f. 1907, Skúla f. 1908  Petrínu f. 1911 og Borghildi Kristínu f. 1915. En hún, Bogga frænka, er sú eina þeirra systkina sem enn er á lífi. (Þegar þetta er skrifað). Einnig ólu þau upp tvo pilta þá Steingrím Bergmann Loftsson, frá því hann var 4ra ára, Steina í Hólum átrúnaðargoðið hans Skúla bróður, og Elías Jónsson frá 8 ára aldri.

Það hefur ekki verið létt verk í þá daga að koma til manns svo stórum barnahópi, en dugnaður og myndarskapur var aðalsmerki þeirra hjóna. Það þurfti því sannarlega fyrirhyggju til að sjá svo um að aldrei skorti neitt og frekar væri hægt að veita en þiggja, en góðvild og greiðasemi við gesti og gangandi var í góðu lagi – og oft var gestkvæmt því leiðin lá um Staðardal þegar fólk var að fara til Ísafjarðar um Steingrímsfjarðarheiði.

Alla tíð vann afi mikið að félagsmálum. Var hreppstjóri yfir þrjátíu ár, í sýslunefnd, einn að stofnendum Kaupfélags Steingrímsfjarðar og fulltrúi hrepps síns á fundum þess í rúm fimmtíu ár. Vegaeftirlit og viðgerðir sá hann um í fjölda ára.

Heima var boðið upp á farandkennslu á bæjunum hluta vetrar að læra skrift, lestur og reikning í sex vikur fyrir jól og aftur sex vikur eftir jól. Það var alls ekki auðvelt fyrir venjulegt bændafólk að mennta börnin í þá daga, en amma og afi okkar voru því samt mjög fylgjandi að börnin þeirra hlytu einhverja menntun og gerðu sitt besta í því enda voru þau öll afar vel gerð. Pettý fór t.d. í Hvítárbakkaskólann einn vetur og pabbi menntaðist til kennara.

Ingimundur var búfræðingur frá Hólaskóla og Steingrímur fór aðeins 15 ára, einnig að Hólum í Hjaltadal, og nam húsasmíði. Ekki má gleyma hagleikskonunni henni Borghildi sem ar annáluð saumakona, hún var aðeins 11 ára þegar hún var farin að sauma skyrturnar á hann pabba sinn, og einhver mesta húsmóðir sem ég þekki. Þetta var ekki svo lítið í þá daga og ekki sjálfgefið, en þau urðu að vinna mikið fyrir sínu námi sjálf því litlir peningar voru til.

Við sem erum hérna núna getum varla gert okkur grein fyrir því hversu óralangt frá okkur í þægindum þetta var. Við skulum reyna að átta okkur á þessu. Þegar ég var hér í sveit 12 ára, 1953, þá var nýi bærinn kominn til sögunnar, en áður hafði verið hér eldri bær með framþil úr timbri en að öðru leyti úr torfi. Allur þiljaður að innan og þótti mjög fínn. Sá nýrri var úr timbri með bárujárni á þaki en torfi hlaðið utan á útveggi á hliðum. Skemma stóð til hliðar á hlaðinu og þar var allt það helsta geymt.
Þá var ekkert rafmagn og ekkert heitt vatn í krönum, en kalt vatn var í bænum. Ég man að ég fór í bað í bala í eldhúsinu í nokkur skipti yfir sumarið, en annars var látið nægja að þvo sér vel að kvöldi eftir vinnu dagsins. Þegar fór að rökkva á kvöldin var kveikt á olíulömpum og kertum.

Allur þvottur var þveginn í höndum því það var ekkert rafmagn og þar af leiðandi engin þvottavél. Vatnið í þvotta var hitað í risastórum Grýlupotti yfir hlóðum úti á hlaði og þvotturinn síðan nuddaður á þvottabretti í bala og svo soðinn í umræddum Grýlupotti á eftir og svo var farið niður í læk, eða á, og tauið skolað þar síðan hengt út á “stag”. Amma rullaði stóru stykkin og notaði til þess stórt trékefli sem hún rúllaði eftir þvottinum og setti fatakistuna sína ofaná og valtaði yfir fram og aftur svo úr mætti sléttast. Svo var komið að því að strauja. Þá voru þrenn straujárn sett á kolaeldavélina og hituð þar. Lausu haldi var smellt á það járn sem notað var og straujað með því á meðan hitinn entist og svo var haldinu smellt af og sett á annað járn og hitt hitað aftur. Svona gekk þetta fyrir sig koll af kolli þar til búið var að strauja allan þvottinn. Það væri ekki ónýtt að eiga svona flottheit í dag.

Á vorin þegar búið var að rýja féð þurfti að þvo ullina og tók það 2-3 daga. Hlóðum var hlaðið upp niður við Staðardalsá og ullin þvegin þar. Áður var búið að safna keytu í Grýlupottinn góða, þ.e. hellt var úr koppum heimilisfólksins í hann og safnað þar til hann var fullur. Þá var keytan hituð og ullin síðan þvegin úr þessu frábæra hreinsiefni og þá varð hún hvít og falleg. Síðan var hún skoluð í ánni og breidd til þerris um stokka og steina. Þegar hún var orðin þurr og hrein var henni troðið í marga poka. Allt var þetta mikil erfiðisvinna. Svo var riðið með ullarpokana á hestum til Hólmavíkur og hún lögð inn í Kaupfélagið þar. Hluti ullarinnar var notuð til heimabrúks og unnin á vetrum í baðstofunni, spunnið band og prjónað úr henni. Afi vann mikið við bókband á veturna fyrir aðra og það veitti fjölbreytni í lestrarefni og var mikið notað. Þá urðu oft löng kvöld stutt þegar allir sátu við einhverja iðju og einn las upphátt.

Allt túnið var slegið með orfi og ljá, rakað og heyinu snúið með hrífum. Heybaggarnir voru bundnir með reipum og voru tveir um hvern bagga, oftast karlmenn, svo var böggunum lyft upp á hesta og hengdir á klakk. Hestarnir teymdir heim að hlöðu og baggarnir látnir gossa inn, svo var heyið leyst í hlöðunni og þjappað þar. Það var alveg ógurlega gaman að fá að “taka á móti” í hlöðunni þegar verið var að hirða.

Forláta fínn kamar var inn af innganginum í bænum áður en komið var inn í eldhúsið sem var risastórt og aðal íverustaður fólksins yfir daginn, inn af því var svo lítil blámáluð sparistofa með kommóðunni hennar ömmu minnar og á henni var alltaf blómavasi með nýtíndum puntstráum. Fyrir hinum endanum á eldhúsinu var svo búrið, að mig minnir, og þar var mjólkin skilin og búið til skyr úr undanrennunni og smjör úr rjómanum.

Uppi var eitt stórt baðstofuloft yfir og þar sváfu allir í rúmum meðfram veggjunum og höfðu sitt dót þar hjá sér og geymdi hver sín föt í kofforti við rúmið og notaði það einnig til að leggja frá sér á, eða sem sæti.

Það var farið snemma á fætur og út til vinnu eftir að búið var að hressa sig á kaffi, kvenfólkið í fjósið og karlarnir til útiverka. Allir komu svo inn og borðuðu staðgóðan morgunmat kl. 9 og fóru svo aftur út að vinna.

Eftir hádegismatinn lögðu sig allir í svona klukkutíma, áður en aftur var farið að vinna og unnið fram á kvöld. Það var nefnilega ekki búið að finna upp stressið. Skúli átti alltaf voðalega bágt á haustin þegar hann kom úr sveitinni því hann þurfti svo á því að halda að leggja sig eftir matinn, en það var ekki í boði því skólinn kallaði.

Ég get sagt ykkur það, unga fólk, að það voru sko engar pitsur eða hamborgarar í matinn. Ekta íslenskur kjarnamatur var á borðum, t.d. súrt slátur og hafragrautur, brauð, kæfa og mysuostur (heimatilbúinn) í morgunverð ásamt kaffisopa. Í hádeginu var góður heitur matur s.s. soðinn lax, silungur, steikt lifur, saltfiskur, kjötsúpa eða saltkjöt og baunir, vellingur o.s.frv. Á kvöldin var svo kalda hafragrautnum frá morgninum hrært saman við ósætt skyr og nefnist það “hræringur”, hann var borðaður með mjólk út á og haft með súrt slátur, sviðasulta, lundabaggi, harðfiskur, rúgbrauð og smjör og fleira.

Þetta litla afdalakot, Hólar, var harðbýlisjörð og erfitt um alla aðdrætti hér lengst úti á hjara veraldar, gaf ekki meira en svo að það mætti af því lifa. Nokkur búbót var þó af sjávarfangi úr Steingrímsfirði. Herti steinbítsriklingurinn var alveg herramannsmatur og það var alltaf nóg af honum út í skemmunni á bæjarhlaðinu. Í Staðardalsá voru líka góð hlunnindi af veiði og man ég vel eftir því að Steini skaust stundum með stöngina og náði í 1-2 laxa í soðið og var snöggur að því.

Mig minnir að þegar ég var hérna í sveit þá hafi verið þrjár eða fjórar mjólkandi kýr í litlu torffjósi við hliðina á bænum og þaðan innangengt í fjóshlöðuna sem var þvert fyrir ofan bæjarhúsin. Fjárhúsin voru lengra frá, ein voru á túninu þó nokkurn spöl upp frá bænum ásamt fjárhúshlöðu og önnur hérna vestar og þar var líka hlaða og gæti ég trúað að hér hafi verið um tvö hundruð fjár. Allmarga hesta átti afi líka, átta til tólf að mig minnir, og ég man að einn hét Bleikur og annar Stóri-Rauður, öðru nafni Hóla-Rauður. Hann þótti hafa mannsvit, t.d.sótti hann Bleik sem stundum var óþekkur og hljóp í burtu og vildi ekki láta taka af sér reiðinginn, og rak hann til að hlýða. Hann varð allra hesta elstur 34ra vetra.

Þegar hér var komið sögu var búið að fjárfesta í jeppa árg. ´47. Hann var eldrauður og númerið var T-8, aldrei kallaður annað en Hóla-Rauður.

Mikil og góð beit er í dölunum hér í kring og landið vel fallið til fjárræktar, enda var féð vel vænt.

Mitt hlutverk þetta sumar var að sækja kýrnar og man ég að mér þóttu þær fara ansi langt þegar þær tóku upp á því að þvælast saman við Kleppustaða-kýrnar. Þá kom sveitasíminn í góðar þarfir til að grennslast fyrir um ferðir kúnna þann daginn. Símann gátu allir í sveitinni hlerað þegar einhver var að tala því allt var samtengt. Stundum þurfti að sækja þær á hesti og Steini eða Sigga redduðu því. Í minningunni er þetta óralöng leið fram að Kleppustöðum, en Kirkjuból er á milli og ekkert mál var að skottast þangað frameftir á eftir þeim. Allir þessir bæir eru nú í eyði.

Vel á minnst, Sigga, hún er órjúfanlegur þáttur í Hólaminningunum. Hún var sko partur af prógramminu og gersamlega ómissandi. Það sést best á því að í okkar fjölskyldu var hún, og er, aldrei kölluð annað en “Sigga í Hólum” og Sigga gat bókstaflega allt. Hún var hægri hönd ömmu okkar. Saumaði snilldarvel, er útlærður klæðskeri en steinþegir yfir því, hún bakaði, eldaði, mjólkaði, heyjaði, batt baggana á móti Steina og jafnvel sló ef þurfti, skúraði og var jafnvíg á alla hluti bæði inni og úti, alltaf í góðu skapi og söng og trallaði við vinnu sína. Já svona manneskja er svo sannarlega Guðsgjöf.

Ekki var hann “Steini í Hólum” síðri. Myndarlegur maður, afar heillandi persóna og skemmtilegur, bráðlaginn og mikið fyrir tónlist. Spilaði vel á harmonikku og reytti af sér brandarana og það tísti í honum þegar hann hló. Eins og ég sagði áðan þá var hann átrúnaðargoðið hans Skúla bróður. Þegar Skúli kom úr sveitinni frá afa og ömmu á haustin þá hafði hann frá mörgu merkilegu að segja og oftast endaði frásögnin á orðunum: “Hann Steini í Hólum sagði það“ eða, “Steini í Hólum sagði að þetta væri vísindalega sannað”.

Steini giftist seinna stúlku úr Tungusveit sem heitir Ásta Bjarnadóttir, og bjuggu þau að Stað og þar býr nú sonur þeirra Magnús Steingrímsson. Steini lést úr krabbameini 13. maí 1977, aðeins 52 ára að aldri frá konu og 5 börnum.

Bræður pabba, þeir Ingimundur, Steingrímur og Skúli, létust allir fyrir aldur fram og voru öllum mikill harmdauði. Ingimundur dó árið 1934. Hann var kvæntur Guðmundínu, elstu dótturinni  frá Ósi og bjuggu þau þar, en voru barnlaus. Hann var orðinn mikill framámaður í sinni sveit er hann lést.
Steingrímur drukknaði í Steingrímsfirði árið 1924, þá nýkvæntur maður. Kona hans var Þórdís Jónsdóttir, ættuð úr Skagafirði, systir hans Árna hennar Ingibjargar heima á Siglufirði. Þá orðinn útlærður húsasmiður og símstöðvarstjóri á Hólmavík. Hann þurfti að fara norður yfir Steingrímsfjörð til að gera við símastaura sem höfðu skemmst og fór þá ferð á báti við annan mann, þegar hvessti skyndilega og báturinn fórst og drukknuðu þeir báðir. Þetta var svo hörmulegt slys að Kristín amma okkar, en Steingrímur var augasteinninn hennar, var í sárum í mörg ár á eftir.

Skúli dó úr giktsótt sem hann fékk upp úr skarlatsótt, aðeins tæplega 32 ára, snemma árið 1940. Pabbi okkar og hann voru mjög miklir mátar enda aðeins tæpt ár á milli þeirra í aldri og þeir voru eins og tvíburar. Pabbi sagði mér síðar, að þegar Skúli dó hefði sér verið mikið brugðið. Skúli var fjölhæfur maður eins og þessi systkini öll. Hann var t.d. organisti í Staðarkirkju og er gamla orgelið hans ennþá til í húsinu heima á Siglufirði. Hann var ókvæntur og barnlaus.

Pabbi, Guðbrandur, lést á Siglufirði 1994 eftir farsælan kennaraferil til margra ára og áður var hann kaupfélagsstjóri hér á Hólmavík. Ævi hans voru gerð góð skil í hinu margrómaða leikriti Brandarasystra á Siglufirði 1995. Það er honum mest að kenna, eða þakka, með dyggri hjálp frá mömmu, að þessi ætt er nú svo mannmörg sem raun er á.

Petrína dó 20 mars 1991 og vantaði réttan mánuð í áttrætt hún starfaði lengst af sem talsímavörður fyrst á Hólmavík og síðar í Reykjavík hún var ógift og barnlaus.

Borghildur Kristín, Bogga frænka, er hér með okkur og getur frætt ykkur um ýmislegt markvert sem ykkur dettur í hug að spyrja um. Hún var gift Magnúsi Ingimundarsyni frá Bæ, hann er látinn fyrir allmörgum árum. Hún á soninn Magnús Haraldsson, Magga aðstoðarbróður vorn. Ég get sagt ykkur það til gamans að þegar hún Bogga fæddist, þá gekk fæðingin frekar illa og Pettý flúði út í skemmu til að heyra ekki hljóðin í mömmu sinni. Afi tók á móti barninu ásamt Kristínu móður sinni því ljósmóðirin komst ekki í tæka tíð. Þegar Pettý fékk að koma inn til að líta á systir sína þá sá hún bara mikinn svartan lubba upp fyrir sængina og hélt að mamma sín hefði eignast hund.

Þá hafið þið fengið að heyra ágrip af sögu föðurættar okkar og vona ég að þið séuð einhvers vísari. Eins og þið hafið nú kynnst þá er ljóst að við erum komin af miklu kjarna- og hæfileikafólki langt aftur í ættir. Vonandi hafið þið haft af þessu einhverja skemmtun, en mér fannst mjög gaman og fróðlegt að tína þetta saman.

Þakka áheyrnina, Hildur Guðbrandsdóttir.