Gríðarlega er mikið af hval á Steingrímsfirði þessa stundina og engu líkara en hnúfubakurinn hafi ákveðið að slá skjaldborg um hrefnurnar sem er á firðinum. Hvalveiðiskipið Dröfn lónar um fjörðinn í leit að bráð og allt í kringum hana má sjá sporðakast fjölmargra hnúfubaka. Jóhann Björn Arngrímsson smellti af nokkrum myndum af hvalveiðiskipinu Dröfn og hvölum sem léku í kringum það. Undanfarnar vikur hefur verið mikið um hvali á Steingrímsfirði og lofar góðu fyrir verkefnið WOW! sem unnið hefur verið hugmynd að undanfarið ár.
WOW! verkefnið gengur út á náttúruskoðun og hvalaskoðun úr landi. Aðstandendum verkefnisins var nokkuð brugðið þegar fréttist af hrefnuveiðum á firðinum í morgun en héldu ró sinni þar sem Hafró vissi ekki um fyrirætlanirnar þeirra. Samkvæmt upplýsingum frá talsmanni Hafró reynir stofnunin að forðast að veiða hvali á þeim svæðum þar sem unnin eru verkefni í hvalaskoðun, líkt og á Skjálfanda og öðrum ákveðnum svæðum við landið. Hægt er að nálgast heimasvæði WOW! á slóðinni www.strandir.saudfjarsetur.is/wow.
Eins og sjá má þá eru hnúfubakar allt í kringum Dröfn RE
Myndirnar eru teknar frá smábátahöfninni á Hólmavík
LJósm.: Jóhann Björn Arngrímsson