Mjög góð mæting var á íbúafund á Hólmavík síðastliðinn miðvikudag, þar sem fjallað var um möguleika á að leggja hitaveitu til þorpsins. Það voru María Maack hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða og Haukur Jóhannesson hjá Íslenskum orkurannsóknum sem fluttu erindi og sköpuðust líflegar umræður. Í pistli á vef Strandabyggðar fer Andrea K. Jónsdóttir yfir fundinn og má sjá þann pistil undir þessum tengli. þar segir m.a.: „Á fundinum kom berlega í ljós að mikill áhugi er fyrir hitaveituframkvæmdum í sveitarfélaginu og nokkuð ljóst að áhugi er fyrir því að farið verði í frekari upplýsingaöflun og undirbúning vegna hitaveitu í Strandabyggð og gerðar ítarlegar áætlanir svo hægt sé að taka ákvarðanir hitaveituframkvæmdir byggðar á staðreyndum.“ Á vef Strandabyggðar er einnig að finna tengil á kynningu Maríu. Meðfylgjandi ljósmynd af fundargestum tók Ingimundur Pálsson.