22/12/2024

Héraðsskjalasafn á Hólmavík?

Verður þetta hús að héraðsskjalasafni?Ein af tillögunum í Vaxtarsamningi Vestfjarða sem nýlega var kynntur og gefinn út af Iðnaðarráðuneytinu, snýst um að byggt verði upp Héraðsskjalasafn fyrir Strandir á Hólmavík. Slíkt safn hefur aldrei verið stofnsett á Ströndum og gögnum sem eiga heima á slíku safni aldrei verið safnað á markvissan hátt. Samkvæmt tímaáætlun er gert ráð fyrir fullgerðu safni fyrir 1. júní 2006 og að Menntamálaráðuneyti og Hólmavíkurhreppur beri ábyrgð á framkvæmdinni.

Það er ljóst að víða á svæðinu liggja ómetanleg menningarverðmæti - skjöl, bréf, bækur, ljósmyndir og fleiri gögn og heimildir í eigu félaga, stofnana, fyrirtækja og einstaklinga. Ljóst er að á hverju ári fer hluti þessara gagna forgörðum, skjöl og gögn eyðileggjast vegna lélegra geymsluskilyrða eða er einfaldlega fleygt.

Hugmyndin er að Héraðsskjalasafn geti orðið vettvangur menningarverkefna og rannsókna á sögu svæðisins. Jafnframt gæti slíkt safn orðið miðstöð fyrir fræðimenn í héraðinu og lykilaðili við miðlun og skrásetningu sögulegs fróðleiks eins og víða er í öðrum sýslum. Það eru því bæði varðveislusjónarmið og hugmyndir um nýtingu efnisins í héraði sem ráða því að áhersla er lögð á að héraðsskjalasafn sé staðsett á Ströndum.

Fróðlegt verður að fylgjast með framvindu þessara mála, en Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra sagði nýverið í fjölmiðlum að Vaxtarsamningurinn væri alvarlegt plagg sem unnið yrði eftir.