14/10/2024

Héraðssamband Strandamanna sækir um Landsmót 50+


Á ársþingi Héraðssambands Strandamanna (HSS) sem haldið var á Borðeyri á dögunum var samþykkt tillaga um að stjórn HSS myndi sækja um að halda Landsmót 50+ árið 2014 í samstarfi við sveitarfélög á svæðinu. Hefur nú verið send inn umsókn. Á árinu 2014 verða liðin 70 ár frá stofnun HSS. Stefnt væri að keppni m.a. í frjálsum íþróttum, sundi, golfi, badminton, borðtennis, boccia, bridds, skák, ringo, víðavangshlaupi, dráttarvélakstri, línubeitningu, pönnukökubakstri og hrútaþukli svo fátt eitt sé nefnt. Óhætt er að segja að það yrðu stórtíðindi ef af þessu yrði, en án efa verða mörg sambönd um hituna.

Sveitarfélög á Ströndum hafa tekið vel í fyrirhugaða umsókn, en UMFÍ gerir jafnan samninga við sveitarfélögin þar sem mótin eru haldin um þeirra framlag til verkefnisins.