02/05/2024

Helstu verkefni lögreglunnar

Samkvæmt frétt frá lögreglunni á Vestfjörðum um helstu verkefni liðinnar viku voru 14 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum. Sá sem hraðast ók var mældur á 125 km hraða á Vesturlandsvegi um  Holtavörðuheiði þar sem hámarkshraði er 90 km. Fjórir aðrir ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur á þessum vegarkafla. Þá voru fjórir stöðvaðir fyrir sömu sakir á Djúpvegi.

Fimm umferðaróhöpp voru tilkynnt í vikunni. Á mánudeginum missti ökumaður stjórn á bifreið sinni í hálku á Óshlíðarvegi við Krossinn. Bifreiðin hafnaði á grjótvörnum ofan við veginn og skemmdist mikið. Ekki urðu slys á ökumanni eða farþegum. Þann sama dag fór bifreið úr af veginum í Breiðadal í Önundarfirði vegna hálku. Svipað atvik varð á Kambsnesi í Álftafirði á föstudeginum. Báðar þessar bifreiðar náðust aftur lítið skemmdar upp á veg og engin slys urðu á fólki. Þessu til viðbótar var bifreið ekið á grjót á veginum um Óshlíð á laugardaginn og skemmdist nokkuð.

Kl. 13:50 á fimmtudaginn bárust upplýsingar um mögulega óstöðugt ástand á jarðvegi ofan við bæinn Laugarból í Laugardal við Ísafjarðardjúp. Vegna mikilla rigninga var ákveðið að rýma bæinn vegna skriðuhættu og stóð sú rýming fram til sunnudagsins kl. 11:11 en þá var talið að ekki væri lengur hætta á ferðum.

Aðfaranótt sunnudagsins höfðu lögreglumenn afskipti af eftirlitslausu unglingasamkvæmi á Ísafirði og var nokkrum ungmennum komið í hendur forráðamanna í framhaldinu.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum varð mannbjörg er litlum báti með fimm manns um borð hvolfdi á Fremra-Selvatni ofan Hörgshlíðar í Mjóafirði. Einn maður var fluttur mjög þrekaður og kaldur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahúsið á Ísafirði. Maðurinn mun vera á batavegi eftir þetta óhapp.