22/12/2024

Heimildasöfnun á dráttarvéladegi

Á morgun sunnudag verða haldin Töðugjöld og dráttarvéladagur á Sauðfjársetrinu í Sævangi og hefst skemmtunin kl. 14:00. Keppt er í akstursleikni á gamalli dráttarvél, veglegt kaffihlaðborð er á boðstólum, farið verður í leiki á vellinum og fleira til gamans gert. Í tilefni af hátíðisdeginum hefur Sauðfjársetrið nú hrundið af stað heilmikilli heimildasöfnun um vélvæðinguna á Ströndum og er ætlunin að nota afraksturinn á sýningu safnsins næsta sumar. Bæði er óskað eftir ljósmyndum að láni til að skanna og einnig margvíslegum upplýsingum og sögum sem tengjast dráttarvélabúskap Strandamanna og öðrum tækjum, hvenær vélar komu á bæi og fleira þess háttar. Síðar í haust verður síðan birtur spurningalisti til að forvitnast frekar um þessi efni, bæði hér á strandir.saudfjarsetur.is og einnig sendur á sveitabæi.