23/12/2024

Heilmikil dagskrá á Bryggjuhátíð

Bryggjuhátíð á Drangsnesi er haldin á morgun, laugardag, og í kvöld verður hitað upp fyrir hátíðina á Malarkaffi. Þar skemmta Jögvan Hansen og Vignir Snær fólki fram eftir nóttu. Á morgun rekur svo hver viðburðurinn annan, Grímseyjarsiglingar, sjávarréttasmakk, markaðsstemmning, myndlistar- og ljósmyndasýningar, fótboltaleikur, söngvakeppni barnanna, grillveisla, kvöldskemmtun og varðeldur. Þegar nóttin leggst yfir verður bryggjuhátíðarball með Stuðlabandinu í Samkomuhúsinu Baldri en á Malarkaffi skemmta Jögvan Hansen og Vignir Snær. Fyrr um daginn skemmta þeir félagar börnunum á Malarkaffi kl. 15:00.

Fjöldi lista- og sögusýninga setur svip á hátíðina. Grásleppusýning, málverkasýning Ingrúnar Ingólfsdóttur, ljósmyndasýning Hafdísar Óskar Gísladóttur, ljósmyndasýningin Mannlíf í Kaldrananeshreppi, ljósmyndasýning Jóns Halldórssonar og ljósmyndasýning Árna Baldurssonar.

Grímseyjarsund er á dagskránni, en sjósundkappar synda þá til lands úr Grímsey. Þá er fuglahræðukeppni á dagskránni og kjósa gestir hátíðarinnar best heppnuðu hræðuna.

Bryggjuhátíð er nú haldin í 16. skiptið en hún var fyrst haldin 1996.