11/10/2024

Hefur landsbyggðin efni á Reykjavík?

Niðurskurður í heilbrigðismálum utan höfuðborgarsvæðisins hefur vakið talsverða umræðu um hagkvæmni þess að veita opinbera þjónustu á einum stað og sanngirni þess að slík þjónusta sé veitt í heimabyggð. Í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða kl. 12:10 föstudaginn 22. október mun Þóroddur Bjarnason prófessor við Háskólann á Akureyri fjalla um samband höfuðborgarsvæðisins og byggðanna vítt og og breitt um landið. Fyrirlestrinum verður varpað út á óravíddir internetsins í beinni útsendingu, líkt og Strandamenn eru þekkja frá súpufundum á Café Riis í fyrravetur. Til að tengjast þarf að smella á eftirfarandi slóðina, en hún verður ekki virk fyrr en samdægurs: http://media.netsel.is/hsvest.

Í erindinu mun Þóroddur Bjarnason spyrja hvort þjónusta ríkisins í Reykjavík sé peninganna virði fyrir aðra landsmenn. Meðal annars mun hann fjalla um byggðaþróun á Íslandi síðustu öldina, þéttbýlisvæðingu víða um land og brýnan vanda strjálbýlustu svæða, samgöngur, samgöngubætur, þjónustusókn og þá þjónustu sem ríkið veitir skattgreiðendum í Reykjavík fremur en í heimabyggð. Loks mun hann varpa fram til umræðu hvernig nálgast megi sátt um hagkvæmni og sanngirni í byggðamálum.

Þóroddur Bjarnason er prófessor við hug- og félagsvísindadeild HA, hann er staddur á Ísafirði við kennslu í tilraunaverkefni Háskólaseturs Vestfjarða og HA um fjarnám í sálfræði.