05/11/2024

Handboltinn á breiðtjaldi á Café Riis

Það er mikill spenningur á Ströndum vegna handboltans, enda mikið í húfi í leik Íslendinga á Evrópumótinu í dag. Tap gæti þýtt að Ísland félli úr keppni, en sigri Ísland fer liðið í milliriðil með 2 stig í farteskinu. Veitingastaðurinn Café Riis á Hólmavík sýnir leikinn sem hefst kl. 17:00 á breiðtjaldi í pakkhúsinu og opið verður í pizzur. Fyrir handboltaáhugamenn má sjá hér fyrir neðan nánari greiningu á því hvað ólík úrslit í leik Íslendinga þýða fyrir framhaldið, á auðskilinn og skilmerkilegan máta.

Það fer eftir úrslitunum í leiknum í dag hvert framhald íslenska liðsins í keppninni verður:

# Ef Ísland vinnur eða gerir jafntefli kemst það í milliriðil með 2 stig og Slóvenía fellur úr keppni.
# Ef Ísland tapar og Noregur nær stigi gegn Króatíu fellur Ísland úr keppni.  
# Ef Slóvenía vinnur með 1-2 mörkum fellur Noregur úr keppni (að því gefnu að þeir nái ekki stigi gegn Króatíu) og Ísland fer í milliriðil með ekkert stig.
# Ef Slóvenía vinnur með 3 mörkum og Ísland skorar 27 mörk eða meira fellur Noregur úr keppni (að því gefnu að þeir nái ekki stigi gegn Króatíu) og Ísland fer áfram í milliriðil með ekkert stig.
# Ef Slóvenía vinnur með 3 mörkum og Ísland skorar 26 mörk eða minna fellur Ísland úr keppni.
# Ef Slóvenía vinnur með 4 mörkum eða meira er Ísland úr leik.