22/12/2024

Handboltadiskó á laugardagskvöldið

Það var gríðarleg stemmning um land allt í dag þegar þjóðin fylgdist með "strákunum okkar" leggja Spánverja að velli í undanúrslitaleik handboltakeppni ÓL í Peking. Á Hólmavík mættu fjölmargir gestir á Café Riis og hvöttu landsliðið áfram með hrópum, klappi og köllum, enda leikurinn sýndur á smáum risaskjá í pakkhúsinu. Úrslitaleikurinn fer fram snemma á sunnudagsmorguninn, kl. 7:45, og af því tilefni hefur Café Riis ákveðið að blása til dúndrandi diskóteks annað kvöld undir stjórn Arnars S. Jónssonar. Barinn opnar um kl. 22:00 og fjörið stendur síðan til kl 3:00.

Þeir sem taka þátt í fjörinu verða síðan að ákveða sjálfir hvort þeir leggja sig fyrir leik eða vaka þar til honum lýkur!