22/09/2023

Hamingjudagar – hátíðin okkar

Aðsend grein: Arnar S. Jónsson.
Nú í vikunni og sérstaklega um næstu helgi höldum við bæjarhátíðina Hamingjudaga. Mér finnst Hamingjudagar frábær hátíð og mér hefur fundist það alveg síðan ég mætti fyrst á hátíðina árið 2005. Ég verð samt að viðurkenna að það hefur komið mér pínulítið á óvart hvað allir íbúar í Strandabyggð eru jákvæðir, drífandi og viljugir til að greiða götu hátíðarinnar þannig að hún takist sem best. Það er alveg sama hvaða erindi framkvæmdastjórinn hefur átt við fólk í tengslum við hátíðina; allir eru til í allt með bros á vör. Mig grunar að ástæðan fyrir þessu jákvæða viðhorfi sé einfaldlega sú að íbúar í Strandabyggð eru með það á hreinu hvað Hamingjudagar snúast.

Hamingjudagar eru nefnilega ekki bara tilvalið tækifæri til að gera sér dagamun, mála bæinn rauðann, appelsínugulan, gulan og bláan og kíkja á skemmtilega dagskrá góðra listamanna af ýmsu tagi. Hamingjudagar eru miklu meira en einhver skemmtidagskrá. Þeir eru staðfesting á samhug, samvinnu, gleði og kærleik íbúa í Strandabyggð gagnvart hvorum öðrum. Þeir eru tækifæri til að staldra við og hugsa um það sem skiptir raunverulegu máli í lífinu. Þeir eru tækifæri til að taka á móti kærum og góðum gestum og eiga gæðastund með þeim. Svei mér þá ef Hamingjudagarnir kalla ekki bara fram það besta í fólki.

Hamingjan er samt miklu flóknara fyrirbæri en svo að nokkrir skemmtilegir dagar í júní og júlí dugi til að kalla hana fram hjá hverjum og einum. En þessir dagar geta hjálpað til. Mig langar til að hvetja alla gesti hátíðarinnar sérstaklega til að nýta sér þær smiðjur og námskeið sem verða í boði í ár. Þar er hægt að fræðast um ýmsar aðferðir sem hjálpa mönnum í leit að hamingjunni. Meiri þekking á þannig aðferðum þýðir meiri möguleika á hamingju … og hver vill ekki auka hamingju sína? Ég fékk einmitt lítinn miða inn um lúguna hjá mér í fyrradag sem á stóð að með viljastyrk verði veröldin full af hamingju (bestu þakkir til hins ókunnnuga sendanda). Viljastyrkur manna í eltingaleiknum við hamingjuna eflist örugglega við að sækja námskeið og smiðjur á Hamingjudögum.

Eins vil ég hvetja fólk til að vera duglegt að sækja aðra atburði á hátíðinni. Hvort sem þú kíkir á mósaiklistamenn, ljósmyndara, málara, brjálaða langhlaupara, miðil, teiknara, pollapönkara, sæskjaldböku, spaugstofukall með trommuhring, sveiflukóng með dansleik, leikhóp með mjallhvítt ævintýri, hnallþórur, barnaleiki, hamingjutóna, siglingar, töframann, óvenjulegan sveitarstjórnarfund eða syngjandi bóndason með braggatónleika, þá er morgunljóst að allir þessir atburðir fara fram í nafni gleði, kátínu, fjörs og hamingju.

Verið velkomin á Hamingjudaga – hátíðina okkar!

Arnar S. Jónsson,
hamingjusamur íbúi í appelsínugula hverfinu.