14/12/2024

Bændur verða blórabögglar

Aðsend grein: Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður
Nú er helsta fréttin í fjölmiðlum landsins þessa dagana að lækka megi verð á landbúnaðarvörum, ef ríkið fellir niður tolla og vörugjöld og heimilar frekari innflutning á þeim vörum en nú er. Hið nýja Samkeppniseftirlit byrjaði og fann út að verðið væri um 40% hærra en í gömlu ESB löndunum að meðaltali og lagði til breytingar á stefnu stjórnvalda.

Síðan hefur hver aðilinn á fætur öðrum tekið undir, Samtök verslunar og þjónustu, sjálf Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og talsmaður neytenda svo nokkrir séu nefndir. Allir hafa gert sig seka um það, að mínu mati, að setja samasem merki milli lækkunar á sköttum ríkisins og lækkunar á endanlegu verði vörunnar til neytenda. Þótt ríkið lækki sínar tekjur af innfluttum landbúnaðarafurðum þá leiðir það ekki endilega til lækkunar á vöruverðinu.

Svo mikið eiga menn að vita af reynslunni. Verð á vöru er það sem hægt er að fá kaupandann til þess að greiða, en ekki það sem útreikningar sýna um framleiðslu- og flutningskostnað. Mun fleirir landbúnaðarafurðir eru fluttar til Íslands án tolla en víðast hvar í Evrópu, af þeirri einföldu ástæðu að við framleiðum færri vörutegundir. Hver er verðmunur á þeim vörum og sambærilegum vörum í ESB löndunum 15 og skilar stefna ríkisins sér til neytenda ? Ekkert hef ég séð um það í umræðunni.

Ekki svo að skilja að ég sé að tala gegn öllum breytingum á núverandi stefnu. En hún hefur tryggt nokkuð öflugan landbúnað hér á landi og sæmilegan bakstuðning við byggð í dreifbýlinu. Samstarf bænda , stjórnvalda og launþegahreyfingar síðustu 15 ár hefur skilað samfelldri verðlækkun á helstu framleiðsluvörunumog ég er ekki viss um að betur hafi verið gert á öðrum sviðum þar sem fullt frelsi er.

Að minnsta kosti væri nauðsynlegt að fá sambærilegt yfirlit yfir verðþróun þar áður en menn leggja í víking gegn núverandi stefnu. En ræða má breytingar, ég er til dæmis efins um kerfið í mjólkurframleiðslunni og tel það vera með sömu alvarlegu gallana og í sjávarútveginum.

Mér finnst hins vegar áhugi margra núna á þessu máli vera tortryggilegur. Sagt er að frelsið og samkeppnin gagnist neytendum best, en af hverju sýna þessir aðilar ekki meiri áhuga á fjármagnsmarkaðnum er raun ber vitni? Það er opinn markaður, fjármagnsflutningar heimilir inn og út úr landinu og þar eru a.m.k. 3 viðskiptabankar ásamt sparisjóðunum að keppa.

Samt er ástandið á þessum frjálsa markaði að kostnaður neytenda er óvíða meiri og viðskiptahættir bankanna minna stundum meira á framferði gangstera en virðugleg fjármálafyrirstæki sem starfa á alþjóðavísu. Nýleg skýrsla Neytendasamtakanna dregur þetta skýrt fram Á Íslandi eru neyendur að greiða á hverju ári milljarðatugum króna umfram 9 Evrópulönd sem tekin voru til samanburðar.

Líklega er þetta dýrasti fjármálamarkaður í heimi. En Samkeppniseftirlitið þegir þunnu hljóði. Helsta átakamálið sem varðar þennan markað varðar kröfu viðskiptabankanna um niðurlagningu Íbúðalánasjóðs, aðgerð sem mun hækka vexti íbúðalána og að auki almennt vaxtastig í landinu. Það mun kosta viðskiptavinina á að giska 15 – 30 milljarða króna á hverju ári. Hvað segir Samkeppniseftirlitið um það? Er það ekki einnar skýrslu virði?

Ég held að menn eigi að spara fullyrðingar sínar um væntanlegan sparnað neytenda af niðurfellingu tolla og vörugjalda af þeim landbúnaðarvörum, sem falla þar undir, menn ættu að spara lofgjörðina um frjálsa markaðinn þar til að skýrt hefur verið af hverju fjármálamarkaðurinn er líklega sá dýrasti í heiminum. En hættum að gera bændur að blórabögglum, þeir eiga það ekki skilið. Enginn þeirra á þrjá milljarða króna í KB banka.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi
www.kristinn.is