22/12/2024

Haltur leiðir blindan

Nú styttist í að Strandamaðurinn og nuddarinn Guðbrandur Einarsson frá Broddanesi og íþróttakappinn Bjarki Birgisson leggi upp í ferðalag kringum landið á tveim jafnfljótum, en þeir leggja af stað í göngu umhverfis landið eftir þjóðvegi 1 þann 20. júní. Strandavefurinn mun fylgjast vel með þessu ferðalagi, enda er málefnið þarft – að vekja athygli á málefnum fatlaðra barna og barna sem eiga við erfið og langvarandi veikindi að stríða. Þeir félagar voru í Kastljósinu í Ríkissjónvarpinu í kvöld, en ferðalagið vekur ekki síst athygli fyrir það að Bjarki er hreyfihamlaður og Guðbrandur er orðinn nærri blindur. Samkvæmt tímaáætlun á vef verkefnisins – www.gangan.is – ætla þeir félagar að ganga um Strandasýslu, frá Brú og upp á Holtavörðuheiði, að morgni föstudagsins 29. júli.

Myndir frá því þegar þeir félagar prófa bát sem Kjartan Jakob Hauksson ætlar að róa í kringum landið til styrktar hjálparliðasjóð Sjálfsbjargar í sumar – ljósm. af www.gangan.is.