22/11/2024

Háhraðatengingar á 1500 sveitabæi

Nú á næstu dögum verður boðið út á vegum Fjarskiptasjóðs það verkefni að háhraðavæða nettengingar á 1500 sveitabæjum á landinu sem ekki njóta slíkra tenginga nú. Gert er ráð fyrir 2 megabæta lágmarkstengihraða, samkvæmt ræðu Kristjáns Möller samgönguráðherra á alþingi í vikunni. Samkvæmt Fjarskiptaáætlun átti þessu verkefni að ljúka á síðasta ári, en það hefur tafist, að sögn ráðherrans vegna þess að í ljós hafi komið að staðirnir væru 1500 en ekki 200 eins og áður var álitið. Þau svæði sem netfyrirtæki hugsa sér að sinna á markaðslegum forsendum reyndust umfangsminni en talið var og auk þess þurfti Fjarskiptasjóður að hnitsetja alla staði sem á að háhraðavæða.

Í dreifbýli á Ströndum bíða menn víða óþreyjufullir eftir að fá viðunandi netsamband, enda er það beinlínis afleitt víðast hvar á svæðinu og hvergi fullnægjandi. Því vonast menn til að verkefnið geti gengið hratt og örugglega eftir að útboð hefur farið fram og einnig að ekki dragist lengur að koma verkefninu af stað.

Íbúar og fyrirtæki í dreifbýlinu þurfa ekki að hafa áhyggjur af að þeirra bæir eða starfsstöðvar hafi gleymst eða verði útundan við uppbygginguna. Allar sveitarstjórnir landsins fengu í desember bréf frá Fjarskiptasjóði þar sem þeim var gefinn kostur á að fara yfir lista yfir heimilisföngin sem verða með í útboðinu. Þannig hefur verið skilgreint nákvæmlega hvaða heimilisföngum verður gefinn kostur á að fá tengingar og sá listi fengið yfirlestur þaulkunnugra sveitastjórnarmanna.

Samkvæmt heimildum strandir.saudfjarsetur.is hefur Samgönguráðuneytið brugðist við öllum ábendingum og leiðréttingum sem borist hafa. Efast ritstjórn strandir.saudfjarsetur.is ekki eitt andartak um að sveitarfélögin á Ströndum hafi verið í hópi þeirra fyrstu sem sendu inn athugasemdir, enda um eitt mesta hagsmunamál svæðisins að ræða.