12/12/2024

Hagvöxtur á heimaslóð

Þróunarverkefnið Hagvöxtur á heimaslóð (HH) er sérstaklega lagað að þörfum lítilla og meðalstórra ferðaþjónustu-fyrirtækja á afmörkuðu landsvæði. Fyrsti hluti verkefnisins fór fram á Vesturlandi fyrra hluta árs 2005, nú liggur leiðin á Vestfirði. Skráning er hafin og þegar hafa nokkur fyrirtæki meldað sig í verkefnið, en gert er ráð fyrir 10-12 þátttakendum. Meginmarkmiðið er að aðstoða stjórnendur fyrirtækja við að innleiða skipulögð og árangursrík vinnubrögð við markaðssetningu, stjórnun og vöruþróun og nýta sér á markvissan hátt markaðstækifæri á erlendum mörkuðum. Mikil áhersla er lögð á svæðisbundna samvinnu innan greinarinnar og að auki er lögð áhersla á að auka menntunarstig almennra starfsmanna.

Áhersluþættir:

Svæðisbundin samvinna
Markhópamiðuð markaðssetning
Vöruþróun
Stjórnun/Rekstur

Rauði þráður verkefnisins eru fjórir tveggja daga vinnufundir sem haldnir eru á fjögurra til fimm mánaða tímabili. Á vinnufundunum verður markvisst farið yfir áhersluatriði verkefnisins, auk þess sem þátttakendur miðla af reynslu sinni til hvers annars.
Ráðgjafar munu vinna með þátttakendum á meðan verkefninu stendur.
Þátttökugjald er 95.000 krónur. Í gjaldinu er innifalin þátttaka í vinnufundum, aðstoð ráðgjafa, öll gögn og skipulagning, auk máltíða og gistingar á meðan vinnufundum stendur. Þátttakendur bera sjálfir kostnað af ferðum til og frá vinnufundum.

HH er samstarfsverkefni Útflutningsráðs Íslands, Samtaka ferðaþjónustunnar, Landsbanka Íslands, Mímis-símenntunar, Landsmenntar, Impru nýsköpunarmiðstöðvar, Byggðastofnunar og Ferðamálaseturs Íslands.
Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Guðjón Svansson, verkefnisstjóri hjá Útflutningsráði. Sími: 511 4000, netfang: gudjon@utflutningsrad.is. Skráning í verkefnið fer fram hjá Útflutningsráði, utflutningsrad@utflutningsrad.is eða í síma 511 4000.