30/10/2024

Glímumenn og hagyrðingar

Allt er nú að verða tilbúið fyrir dagskráratriði dagsins á Hamingjudögum á Hólmavík sem verður þjófstartað nú á eftir. Glímukappar láta ljós sitt skína og slá upp glímumóti fyrir gesti og gangandi í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík kl. 17:00 í dag og í kvöld klukkan 20:00 munu svo hagyrðingar glíma við vísnagerðina í Félagsheimilinu á Hólmavík. Nú klukkan þrjú voru Sauðfjársetursmenn langt komnir við að stilla upp fyrir hagyrðingakvöldið með góðri hjálp Lýðs Jónssonar sem er allra manna duglegastur við að rétta fram hjálparhönd.

Hagyrðingar sem koma fram í kvöld eru Georg Jón Jónsson á Kjörseyri, Björn Guðjónsson í Bakkagerði, Stefán Gíslason frá Gröf í Bitru, Ása Ketilsdóttir á Laugalandi, Aðalsteinn Valdimarsson á Strandseljum og Helgi Björnsson á Snartastöðum.