03/05/2024

Glæsilegir tónleikar hjá kór MH

Kór Menntaskólans við Hamrahlíð heimsótti Strandir um helgina og hélt glæsilega tónleika í Hólmavíkurkirkju á sunnudagskvöld. Hópurinn gisti svo í Félagsheimilinu á Hólmavík og morguninn eftir hélt kórinn tónleika fyrir nemendur í leikskólanum Lækjarbrekku og grunnskólanema frá Drangsnesi og Hólmavík. Efnisskrá kórsins var afar fjölbreytt. Þetta er í fyrsta sinn sem kór Menntaskólans við Hamrahlíð heimsækir Strandir, en hann er skipaður 87 nemendum á aldrinum 16-20 ára. Hljóðfæraleikarar eru meðal kórfélaga og spilaði Jakob Ingi Sverrisson nemandi í Tónskólanum á Hólmavík með kórnum á nemendatónleikunum.

Stjórnandi kórsins í ferðinni og allt frá stofnun hans er Þorgerður Ingólfsdóttir. Meðfylgjandi mynd tók Hildur Guðjónsdóttir og fleiri myndir má finna á vef Grunnskólans á Hólmavík – www.strandabyggd.is/grunnskolinn.