23/04/2024

Fyrsta mótorkrossmótið í Skeljavíkurbraut

Mótorkross félag Geislans á Hólmavík ætlar að opna nýja og glæsilega mótorkross braut með móti um næstu helgi, laugardaginn 28. júní kl. 16:30. Opnunarmótið í Skeljavíkurbraut verður liður í bæjarhátíðinni Hamingjudögum á Hólmavík og um er að ræða opið mót þannig að öllum áhugamönnum hvar sem er á landinu er velkomið að taka þátt. Ekki liggur ljóst fyrir eins og er hvernig skipulag keppninnar verður, hvað verður keppt í mörgum flokkum. Það skýrist ekki fyrr en skráningu er lokið og henni lýkur á fimmtudag. Hægt er að skrá sig hjá Karli í síma 899-3481 eða senda póst á thorsteinn@holm.is.

Vefsíða félagsins er á slóðinni www.123.is/strandir, en meðfylgjandi loftmynd af nýju brautinni tók Gunnar Logi Björnsson. Brautin er nú 1100 metra löng, en enn á eftir að bæta við hana lengst til vinstri á myndinni áður en hún verður fullgerð. Neðst vinstra megin má sjá æfingabraut fyrir börn. Skeljavíkurbraut er í landi Skeljavíkur, á bökkum Hvítár, innan og ofan við flugvallarendann á Kálfanesskeiði.

 

Brautarstæðið séð úr lofti – ljósm. Gunnar Logi Björnsson