29/03/2024

Fullt hús á söngvakeppni Samfés

VinningshafarLandshlutakeppni söngvakeppni Samfés fyrir Vestfirði fór fram á Hólmavík um síðustu helgi og var skipulagning og framkvæmd í höndum félagsmiðstöðvarinnar Ozon á Hólmavík. 10 atriði frá Bolungarvík, Hólmavík, Ísafirði og Þingeyri kepptu sín á milli um að komast áfram í úrslitakeppni Samfés á landsvísu. Keppnin fór vel fram og fluttu unglingarnir atriðin sín fyrir fullu húsi áhorfenda. Ísfirðingurinn Sigurður Pétursson frá félagsmiðstöð Ísafjarðarbæjar bar sigur úr býtum með flutningi sínum á  laginu Twist and shout við mikinn fögnuð áhorfenda.

Fyrstu verðlaun kvöldsins voru glæsilegur kassagítar frá Tónabúðinni á Akureyri, ensk-íslenska orðabókin frá JPV, veitingaúttekt hjá Café Riis, Konfektkassi frá Nóa-Sírius og Filo fax frá Pennanum, en þessi fyrirtæki voru helstu styrktaraðilar keppninnar. 

Aðalheiður Lilja Bjarnadóttir frá félagsmiðstöðinni Ozon á Hólmavík lenti í öðru sæti en hún söng lagið Vetrarsól eftir Gunnar Þórðarson í Acapello útgáfu. Í þriðja sæti urðu þær Agnes Ósk Marzellíusardóttir og Sunna Karen Einarsdóttir sem sigruðu í undankeppninni á Ísafirði, en þær sungu lagið Time is running out með hljómsveitinni Muse. Stúlkurnar í öðru og þriðja sæti fengu í verðlaun míkrófóna frá Tónabúðinni, konfektkassa frá Nóa-Sirius, bækur frá JPV útgáfu, matarúttektir í Brú og Staðarskála.

Sigurður Pétursson og Aðalheiður Lilja Bjarnadóttir hafa því öðlast keppnisrétt í lokakeppni Söngkeppni Samfés sem fram fer í Laugardagshöllinni í Reykjavík, laugardaginn 3. mars.

 

Sigurvegararnir með verðlaunin sín – ljósm. Arnór Jónsson