11/09/2024

Fullt af góðum tilboðum í tengslum við karókí-keppnina á Ströndum

Allskyns tilboð verða í gangi á Hólmavík um næstu helgi þegar úrslitakeppni vinnustaða á Ströndum í karókísöng fer fram í Bragganum á Hólmavík á laugardaginn, en keppnin verður þá um kvöldið. Á Café Riis verður eldhúsið opið á laugardagskvöldinu frá kl. 17:30 og þar verður hlaðborð á karókítilboði í boði á aðeins 1.800 krónur. Eftir keppnina í Bragganum verður dansleikur á Café Riis þar sem Bjarni Ómar og Stefán Jónsson leika fyrir dansi fram eftir nóttu. Tilboð á gistingu hjá Ferðaþjónustunni Kirkjubóli verður einnig alla helgina í tilefni af úrslitakeppni vinnustaða á Ströndum í karókísöng.

Tilboðið hjá Ferðaþjónustunni Kirkjubóli gildir um gistingu í uppbúnu rúmi með morgunverði og verðið verður einungis 3.000 krónur pr. mann á nótt alla helgina, frá föstudegi til sunnudags. Klukkan 17:00 verður Draugadagur á Galdrasýningunni þar sem galdramaður af Ströndum tekur á móti gestum klukkan 17:00 – 18:00, laugardaginn 14. október, og kveður niður alla falska og laglausa drauga sem eiga leið um Strandir um helgina. Sérstakt karókí-tilboð verður á galdrabolum í tilefni af þátttöku Strandagaldurs í úrslitakeppninni og þeir verða með 20% afslætti. Þá verður einnig mikið um að vera í tilefni af karókíhelginni á Sauðfjársetrinu í Sævangi sem einnig á fulltrúa í keppninni. Þar verður söngur og spil til skemmtunar og tilboð á kaffi og kleinum frá kl. 15:00 – 17:00 á laugardeginum.

Þess má líka geta að árlegt knattspyrnumót í innanhúsbolta verður haldið í Íþróttahúsinu á Hólmavík á laugardaginn.