22/12/2024

Frú Kollfríður alltaf í boltanum

Þegar Sauðfjársetursmenn gerðu hlé á vinnu sinni við uppsetningu sýningarinnar í Sævangi í dag og ætluðu í venjubundinn fjölskyldubolta á Sævangsvelli eftir kaffipásu brá þeim heldur betur í brún. Á bak við markhornið inni á miðjum vellinum hefur æðarkolla hreiðrað um sig og verpt fjórum eggjum. Fékk hún umsvifalaust nafnið Frú Kollfríður og snérist nú boltaleikurinn upp í miklar vangaveltur um hvernig mætti verja hreiðrið fyrir ágangi æstra íþróttamanna og jafnvel fyrir boltanum sjálfum þegar hann lægi í horninu eða færi óvart framhjá.

 Hönnun á varnarmannvirkjum er ekki lokið, en ljóst er að grípa verður til einhverra ráðstafana, því Sauðfjársetursmenn spila gjarnan fjölskyldubolta á vellinum á sunnudögum yfir sumarið og svo eru þeir líka öðru hverju við æfingar á hinum margfræga trjónufótbolta og sjá þá sjaldnast hvað er fyrir framan fætur þeirra.

Frú Kollfríður lét sér vel líka þó menn væru að væflast í kringum hana, en stökk þó tímabundið af eggjunum þegar mælt var fyrir varnarmannvirkjum.

Æðarkollan Frú Kollfríður og eggin hennar – Ljósm. Jón Jónsson.